32 drengir létu lífið í hefðbundnum manndómsvígslum í Suður-Afríku í ár og fleiri en 150 enduðu á sjúkrahúsi. Flestir dóu vegna mistaka við umskurð en aðrir af völdum barsmíði, ofþornunar eða vegna þess að þeir voru settir í aðstæður þar sem skorti á hreinlæti.
Af dauðsföllunum áttu 27 sér stað í hinu strjálbýla Eastern Cape-héraði, þar sem 150 voru fluttir á sjúkrahús vegna bruna, alvarlegra höfuðáverka og í einu tilfelli aflimunar getnaðarlimsins.
Umskurður er mikilvægur þáttur í manndómsvígslunni, sem fylgir yfirleitt í kjölfar tveggja til fjögurra vikna útiveru, þar sem reynir á líkamlegan styrk piltanna. Tímabilið stendur yfir í sex vikur, yfir hávetur í Suður-Afríku.
Sérstök nefnd komst að þeirri niðurstöðu í fyrra að 400 piltar hefðu dáið og 500.000 dvalið á sjúkrahúsi eftir að hafa sótt svokallaða vígsluskóla á árunum 2008-2013. Fylgikvillar voru algeng orsök dauða og sjúkrahúsvistar, t.d. sýking í kjölfar umskurðar.
Dauðsföllin hafa kallað á harða fordæmingu stjórnvalda og annarra yfirvalda. Sumir benda þó á að manndómsvígslurnar séu mikilvægur þáttur í menningu landsmanna.
Flest dauðsföllin áttu sér stað við óskráða vígsluskóla og þá þekkist það að drengjum sé rænt og þeir tilneyddir til að gangast undir umskurð. Á þessu ári hafa yfirvöld lokað 150 óskráðum vígsluskólum og þá hafa foreldrar verið hvattir til að sækja brot fyrir dómstólum.