Myndbandið af því þegar brimbrettakappinn Mick Fanning varð fyrir hákarlaárás í beinni útsendingu i sjónvarpinu hefur farið sem eldur í sinu um netið undanfarna daga. Nú hefur Fanning loks tjáð sig eftir volkið.
Fanning var greinilega mikið niðri fyrir þegar hann ræddi við 150 fjölmiðlamenn á blaðamannafundi í Sydney í Ástralíu í gær. Hann var þó með húmorinn í lagi því aðspurður hvað hann myndi segja við hákarlinn ef hann mætti honum aftur sagði hann: „Takk fyrir að éta mig ekki.“
„Ég hef það ágætt. Það er magnað að heyra vini mína greina frá því sem gerðist. Ég hef það samt fínt og er ekki með skrámu á mér,“ sagði Fanning.
„Þetta var meira andlegt áfall. Það munu örugglega líða nokkrar vikur eða mánuðir áður en ég fer aftur út í sjóinn. Ég veit ekki hvað það mun taka mig langan tíma að vinna úr þessu. Ég er bara heppinn að vera með gott fólk í kringum mig.“
Í myndbandinu má í örfáar sekúndur sjá þegar bæði Fanning og hákarlinn hverfa undir yfirborðið og eflaust tóku margir andköf þegar þeir horfðu á það. En hvað var í gangi á þeim tíma?
„Bandið sem festir mig við brimbrettið fór að toga mig niður í sjóinn. Þá fór ég að sparka frá mér og það slitnaði. Ég var öskrandi og sagði Jule [félaga sínum] að koma. Svo syndi ég af stað og sparka frá mér í allar áttir. Svo ákvað ég einhverra hluta vegna að snúa mér við til þess að geta séð dýrið. Ég var með hnefana kreppta og tilbúinn undir það sem var á leiðinni en þá komu sæþoturnar og björguðu mér,“ segir Fanning.
Sjá frétt mbl.is: Myndskeið af árás hárkarlanna
Sjá frétt mbl.is: Horfði á hákarl ráðast á soninn