Kolefnisgreining á gömlu handriti af Kóraninum sem fannst í háskólabókasafni í Birmingham í Bretlandi sýnir að handritið er að minnsta kosti 1370 ára gamalt og þar með elsta þekkta eintak af bókinni sem vitað er um.
Handritið hefur verið geymt á safninu í nær 100 ár án þess að nokkurn hafði grunað að það væri svo gamalt. „Þetta eru skemmtilegar fréttir sem munu væntanlega gleðja Múslíma um allan heim,“ segir Dr. Muhammad Isa Waley, sérfræðingur í handritum við breska þjóðarbókasafnið.
Kolefnisgreiningin var framkvæmd við Oxford-háskólann í Bretlandi og kom í ljós að handritið er úr geita- eða kindaskinni. Niðurstöðurnar benda til þess að 95% líkur séu á því að handritið hafi orðið til á árunum 568-645. Kemur þetta heim og saman við kenningar sagnfræðinga um að Múhammeð hafi upplifað opinberanirnar sem Kóraninn fjallar um á árunum 610-632.
Er því talið að handritið hafi verið skrifað á meðan Múhammeð var ennþá lifandi. „Sá sem skrifaði þetta handrit getur vel hafa þekkt Múhammeð. Hann gæti hafa séð hann í eigin persónu og jafnvel séð hann predika eða ef til vill þekkt hann persónulega,“ segor David Thomas, prófessor í Kristinfræði og Íslam við Oxford-háskóla í samtali við BBC.