Hvalaverndunarsinnar handteknir

Sea Shepherd mótmæla hvalveiðum um heim allan.
Sea Shepherd mótmæla hvalveiðum um heim allan. AFP

„Sjálfboðaliðar Sea Shepherd voru handteknir á mánudagsmorgun í kjölfarið á hinu alræmda hvaldrápi í Færeyjum,“ sögðu hvalverndunarsamtökin Sea Shepherd í yfirlýsingu sem þau sendu frá sér í dag.

Hvalverndunarsamtökin Sea Shepherd greindu frá því í dag að tveir sjálfboðaliðar þeirra hefðu verið handteknir í Færeyjum fyrir að trufla hefðbundnar hvalveiðar eyjaskeggja. Susan Larsen frá Bandaríkjunum og Tom Strerath frá Þýskalandi gætu átt yfir höfði sér allt að tveggja ára fangelsi verði þau fundin sek um að brjóta færeysk lög um hvalveiðar.

Tvo skip Sea Shepherd höfðu verið að fylgjast með 15 bátum heimamanna sem voru við veiðar þegar lögregla kom um borð í annan bátinn og handtók Larsen og Strerath.

Talsmaður færeysku ríkisstjórnarinnar sagði að þeim hefði verið sleppt fljótlega en þyrftu að koma fyrir dómara á fimmtudag. „Lögreglan rannsakar málið og saksóknari mun ákveða hvort málið fari fyrir færeyska dómstóla,“ sagði talsmaðurinn við AFP fréttaveituna.

Fyrr á þessu ári gerði færeyska ríkisstjórnin aðgerðarsinnum erfiðara fyrir með því að breyta lögum um hvalveiði. Sea Shepherd mótmælti hvalveiðum Færeyinga í júní þegar þeir sendu tvo báta og 12 aðgerðarsinna á miðin við eyjarnar.

Við veiðarnar eru hvalirnir gabbaðir inn í fjörð þar sem þeir eru drepnir með handafli, sem innfæddir segja að sé hefð en Sea Sheperd gagnrýna harðlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert