Vladimir Pútín Rússlandsforseti er tilbúinn að veita Silvio Berlusconi, fyrrum forsætisráðherra Ítalíu, rússneskan ríkisborgararétt og gera hann að efnahagsráðherra Rússlands.
Þetta kemur fram í dagblaðinu La Stampa, en Berlusconi á að hafa sagt í matarboði að Pútín treysti honum til þess að stjórna efnahagsráðuneytinu. „Það er búið að setja mig til hliðar á Ítalíu, en Pútín er tilbúinn að veita mér ríkisborgararétt,“ segir í frétt La Stampa og AFP-fréttaveitan gerði skil.
Í fréttinni segir jafnframt að þessi hugmynd leggist vel í hinn 78 ára Berlusconi en haft er eftir honum að hann sjái framtíðina á þann veg að hann verði ráðherra í Rússlandi.
Berlusconi hefur verið áberandi í fjölmiðlum vegna dómsmála á Ítalíu. Hann var nú síðast sakfelldur í þessum mánuði fyrir að hafa mútað þingmanni og fyrr á árinu lauk hann samfélagsþjónustu sem hann var dæmdur til að sinna eftir að hafa verið sakfelldur fyrir skattsvik. Berlusconi var þó sýknaður af því að hafa átt samræði við dansarann Ruby, en hún var undir aldri þegar athæfið átti sér stað. Að mati ítalskra dómstóla gat Berlusconi ekki vitað að hún væri undir lögaldri og því var hann sýknaður.
Pútín og Berlusconi eru miklir vinir og þegar Pútín heimsótti Róm í júní sagði fjömiðlamógúllinn Berlusconi að Forza Italia, stjórnmálahreyfingin sem hann tilheyrir, myndi beita sér gegn þvingunaraðgerðum Evrópusambandsins gegn Rússlandi, en þvinganirnar eru til komnar vegna deilunnar um Krímskaga.
Tvö ár eru síðan að franski leikarinn Gerard Depardieu hlaut rússneskan ríkisborgararétt eftir að hafa gagnrýnt hátekjuskatt í Frakklandi.