Sandra Bland, sem framdi sjálfsvíg í fangaklefa nokkrum dögum eftir að hún var handtekin í Texas fyrir að sparka í lögregluþjón, hafði áður greint fangavörðum í fangelsinu frá því að hún væri í sjálfsvígshugleiðingum. Þetta kemur fram í frétt BBC um málið.
Bland var handtekin þann 10. júlí eftir að hafa verið stöðvuð fyrir brot á umferðarlögum. Eins og kom fram á mbl.is í gær sparkaði Bland í lögregluþjón eftir að hann hafði hótað henni með rafbyssu eftir að hún neitaði að drepa í sígarettu.
Bandaríska alríkislögreglan rannsakar nú andlát hennar. Glenn Smith, lögreglustjóri í umdæminu þar sem fangelsið er sem hún var vistuð í, greindi frá því í samtali við AP í gær að hún hafi sagt við fangaverði að hún hafi áður reynt að fremja sjálfsvíg. Annar fangavörður ræddi svo við Bland. Sá fangavörður segir að ekki hafi verið hægt að sjá að neitt hafi amað að Bland þegar rætt var við hana.
Lögmaður Bland segir ekkert til í þeim sögusögnum að hún hafi áður reynt að fremja sjálfsvíg. „Fjölskylda hennar vill komast til botns í því sem gerðist í fangelsinu. Bland var baráttukona fyrir félagslegu réttlæti. Baráttukonur fyrir félagslegu réttlæti taka ekki eigið líf,“ sagði lögmaðurinn við fjölmiðla.
Sjá frétt mbl.is: Spurningar vakna eftir sjálfsvíg konu
Sjá frétt mbl.is: „Ég grilla þig“