Cecil fannst afhöfðaður og fleginn

Spánverjar fluttu inn 450 ljónshöfuð á árunum 2007-2012. Þess ber …
Spánverjar fluttu inn 450 ljónshöfuð á árunum 2007-2012. Þess ber að geta að ljónið á myndinni er ekki Cecil. AFP

Yfirvöld í Zimbabwe leita nú Spánverja sem er sagður hafa greitt þjóðgarðsvörðum 50.000 evra fyrir tækifærið til að drepa Cecil, eitt frægasta ljón Afríku. Cecil var vinsælasti íbúi Hwange-þjóðgarðsins en hann fannst afhöfðaður og fleginn.

Ljónið bar GPS-kraga vegna rannsóknarverkefnis við Oxford-háskóla, en það gerði yfirvöldum kleift að rekja ferðir þess eftir að það var prettað út fyrir garðinn þar sem það var skotið með boga og ör. Veiðimennirnir ráku síðan slóð ljónsins í 40 klukkustundir áður en þeir drápu það með riffli.

Þeir notuðu beitu til að lokka Cecil út fyrir garðinn, en það er algengt ráð sem veiðimenn grípa til í þeim tilgangi að drepa vernduð ljón á „lögmætan“ hátt.

„Dauði Cecil er harmleikur, ekki bara vegna þess að hann var tákn Zimbabwe, heldur vegna þess að nú verðum við að gera ráð fyrir dauða ljónsunga hans sex, þar sem nýtt karldýr mun ekki leyfa þeim að lifa til að fá þrjú kvendýr Cecil til mökunar,“ sagði Johnny Rodrigues, sem fer fyrir Zimbabwe Conservation Task Force.

Búið er að handtaka tvo menn sem voru í för með Spánverjanum, en hann leikur enn lausum hala. Þá hefur lögregla leitað leifa ljónsins hjá uppstoppurum. Spánn var það land sem flutti inn flest dauð ljón á árunum 2007-2012. Á því tímabili voru alls 450 ljónshöfuð flutt til landsins.

Ítarlega frétt um málið er að finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert