Þrír létust og fimm slösuðust þegar léttflugvél hrapaði í íbúðarhverfi í Tókýó í morgun, með þeim afleiðingum að kviknaði í nokkrum húsum. Um borð var 36 ára gamall flugmaður og fjórir farþegar, en vélin var nýtekin á loft frá Chofu-flugvelli þegar slysið átti sér stað.
Að sögn talsmanns slökkviliðs Tókýóborgar var þremur bjargað á vettvangi, en ríkisfjölmiðillinn NHK hafði eftir lögreglu að tveir farþegar og einn íbúi á svæðinu þar sem vélin brotlenti hefðu látið lífið.
Vitni sagði í samtali við AFP að hún hefði í fyrstu haldið að stór flutningabíll hefði keyrt á hús í nágrenninu. En í kjölfarið sá hún mikinn reyk stíga upp. Eldur kviknaði í að minnsta kosti þremur húsum og tveimur bifreiðum í Chofu, aðeins um hálfan km frá flugvellinum.
Annað vitni sagði í samtali við NHK að sér hefði fundist vélin fljúga ansi lágt og heyrt hvell í kjölfarið. Svo virðist sem þök fleiri húsa hafi skemmst þegar vélin fór niður. Sjónvarpsupptökur sýna slökkviliðsmenn berjast við eldhafið, og brak vélarinnar.
Flugvélin var á leið til Izuoshima-eyju í Kyrrahafi, sem liggur um 100 km suður af miðborg Tókýó. Um var að ræða æfingaflug, að sögn staðarmiðla.
Kotaro Sunaga, 32 ára athafnamaður, sagðist hafa búið á svæðinu í langan tíma og vanist hljóðunum í léttflugvélum og sér hefði strax verið ljóst að eitthvað bjátaði á.
Lögregla rannsakar málið en grunur leikur á um að slysið megi rekja til vanrækslu.