Donald Trump, auðjöfur og forsetaframbjóðandi, mælist með 18% fylgi meðal repúblikana í nýrri könnun CNN. Könnunin er sú fyrsta sem er gerð eftir að Trump sagði öldungardeildarþingmanninn John McCain „enga stríðshetju“. Um símakönnun meðal kosningabærra repúblikana var að ræða. Trump er með mesta fylgi allra forsetaefna repúblikana. Sá sem næstur á eftir honum kemur er Jeb Bush, fyrrverandi ríkisstjóri Flórída, með 15% fylgi meðal flokksmanna sinna.
Í þriðja sæti er ríkisstjóri Wisconsin, Scott Walker, með 10% fylgi.
Fylgi Trumps hefur því aukist um 6% frá síðustu könnun CNN sem gerð var síðla í júní.
Í frétt CNN um niðurstöðu könnunarinnar segir að fylgið sé þó ekki sterkt því meirihluti kjósenda sem rætt var við, um 51%, segist enn óákveðinn. Bush er hins vegar líklegastur til að fá atkvæði þeirra óákveðnu.