Kallar eftir lýðræðisumbótum í Eþíópíu

Barack Obama Bandaríkjaforseti lofaði í dag framlag Eþíópíu í baráttunni gegn hryðjuverkasamtökunum Al-Shebaab, en sagði þörf á lýðræðisumbótum í landinu.

Obama er fyrsti forseti Bandaríkjanna í sögunni sem heimsækir landið, sem er næstfjölmennast í álfunni. Eþíópía er engu að síður mikilvægur bandamaður stjórnvalda í Bandaríkjunum og hefur gengt lykilhlutverki í að berja á baka aftur Al-Shebaab, sem eru nátengd Al-Qaeda. Landið hefur þrátt fyrir það verið gagnrýnt fyrir að virða ekki mannréttindi.

„Hluti ástæðna þess að Al-Shebaab hefur verið í rénum er sú að við höfum notið stuðnings svæðisbundinna samtaka,“ sagði Obama, og vísaði með því til hersveita Afríkubandalagsins og hersveita ríkisstjórnar Sómalíu.

„Við höfum ekki þurft að senda okkar eigin landgönguliða til að berjast - Eþíópíumenn eru harðir í horn að taka,“ sagði Obama og bætti við: „Við eigum enn verk fyrir höndum. Við þurfum að halda pressunni.“

Al-Shebaab hafa á undanförnum dögum þurft að hörfa frá tveimur lykilvirkjum sínum vegna harðrar sóknar Afríkubandalagsins, þar sem Eþíópíumönnum er eignaður heiðurinn að sigrinum.

Þó svo að bandarískir hermenn séu ekki í átökum á jörðu niðri hafa bandarískar herflugvélar reglulega gert loftárásir á íverustaði leiðtoga samtakanna.

Obama ræddi við Hailemariam Desalegn, forsætisráðherra Eþíópíu, en í kosningum sem fóru fram í landinu fyrir tveimur mánuðum vann flokkur hans öll þingsætin. Skilaboð Obama til landsins voru skýr. Þrátt fyrir mikinn hagvöxt í landinu þá þyrfti að gera betur í mannréttindamálum. „Það er mikið verk óunnið og ég held að forsætisráðherrann sé fyrsti maðurinn sem viðurkennir það,“ sagði Obama.

Mannréttindasamtök hafa gagnrýnt heimsókn Obama til landsins, þar sem það gæti aukið á trúverðugleika ríkisstjórnar sem er sökuð um að lítilsvirða mannréttindi, eins og að handtaka blaðmenn og gagnrýnendur ríkisstjórnarinnar á grundvelli hryðjuverkalaga.

„Það eru ákveðin grundvallarréttindi sem verður að hafa í heiðri,“ bætti Obama við. „Enginn efast um þörf þess að við eigum í samtali við stórþjóðir þó svo okkur greini á um þessi atriði. Við bætum stöðuna ekki með því að hundsa hana.“

Lýðræðið nær djúpt

Hailermaim vísaði hins vegar á bug gagnrýni forsetans þess efnis að stjórnarandstaðan hafi verið brotin á bak aftur og frelsi fjölmiðla takmarkað.

„Stuðningur okkar við lýðræði er einlægur og nær djúpt,“ sagði hann, og bætti við að Eþíópía væri mjög ungt lýðræðisríki, sem ætti rætur og margra alda sögu af ólýðræðislegri skipan. Forsætisráðherrann sagði enn fremur að það væri brýn þörf á óháðum fjölmiðlum, sem væru nánast ekki til staðar í landinu. „Fyrir okkur er mjög mikilvægt að vera gagnrýnd, því þannig fáum við skilaboð um að leiðrétta mistök okkar. Fjölmiðlar er ein sú „stofnun“ sem þarf að næra til að heilbrigt lýðræði fái þrifist,“ sagði Hailermariam.

Eþíópíski blaðamaðurinn Reeyot Alemu, sem var nýlega sleppt úr fangelsi eftir fimm ár bak við lás og slá og vann verðlaun Sameinuðu þjóðanna fyrir blaðamennsku árið 2013, segir lítið hæft í fullyrðingum forsætisráðherrans.

„Þau eru ekki tilbúin að gera neitt - enn þann dag í dag er fólk áreitt og fangelsað,“ sagði hún við fréttastofu AFP og sagðist ætla að bíða og sjá hvort eþíópísk stjórnvöld stæðu við orð sín eftir að Obama færi. „Ef Bandaríkin vilja þrýsta á stjórnvöld í Eþíópíu um umbætur, þá geta þau það,“ sagði hún.

Barack Obama í Eþíópíu í dag.
Barack Obama í Eþíópíu í dag. AFP
Hailemariam Desalegn, forsætisráðherra Eþíópíu og þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjaforseta, Susan Rice.
Hailemariam Desalegn, forsætisráðherra Eþíópíu og þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjaforseta, Susan Rice. AFP
Vígamenn Al-Shabaab hafa kynt undir óöld í austurhluta Afríku.
Vígamenn Al-Shabaab hafa kynt undir óöld í austurhluta Afríku. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert