Varar við Disney-væðingu dýra

Grindhvalir í höfninni í Rifi.
Grindhvalir í höfninni í Rifi. mbl.is/Alfons Finnsson

Margir hafa gagnrýnt Færeyinga harðlega fyrir grindardrápsvertíðina þegar grindhvalir eru lokkaðir upp í fjöruna og þeir drepnir. Sjálfboðaliðar samtakanna Sea Shepherd voru handteknir á staðnum en þeir reyndu að koma í veg fyrir drápin.

Berlingske Tidende hefur rætt við forstöðumann dýragarðsins í Kaupmannahöfn sem sjálfur hlaut mikla gagnrýni fyrir ákvörðun dýragarðsins um að aflífa gíraffan Maríus fyrir nokkrum árum. Gagnrýnin gekk svo langt að honum var hótað lífláti á hverjum degi í nokkrar vikur. 

Sjá frétt mbl.is: Magnað myndskeið af grindardrápi í Færeyjum

„Fólk hefur mikla þörf fyrir að vernda dýr sem geta ekki varið sig sjálf. Hins vegar verðum við að sjá málin í samhengi. Fólk hugsar ekki alveg skýrt,“ segir Bengt Holst og nefnir dæmi. 

„Áður en fólk fer að gagnrýna þá sem drepa dýr ætti fólk að muna eftir síðustu máltíðinni sem það borðaði. Mörg okkar borða kjöt á hverjum einasta degi en við viljum ekki vita af því hvernig þau eru tekin af lífi og þeim komið á diskinn okkar. Það ferli er alveg óþekkt fyrir okkur. Mannfólkið drepur líka mörg dýr til þess að halda jafnvægi í náttúrunni,“ segir Bengt.

Hann segir dýragarðinn í Kaupmannahöfn hafa tekið upp þá stefnu fyrir nokkrum árum að hætta að gefa dýrum mannanöfn. Í dag eru það aðeins langlíf dýr sem fá nöfn, til dæmis fílar. „Þannig er hægt að gera dýrin nafnlausari. Þessi Disney-væðing dýra þar sem við ímyndum okkur að þau geti talað og að þau sitji og velti fyrir sér heimspekilegum kenningum, það er ekki veruleikinn. Sú skrýtna sýn getur líka haft neikvæðar afleiðingar fyrir dýrin sjálf.“

 „Það getur leitt til þess að við viljum helst að dýr með stór og sæt augu fái að lifa en að dýr sem eru slímug, grimm og ógeðfelld eigi að deyja. Þau dýr fá ekki sömu athygli,“ segir Bengt.

Sea Shepherd mótmæla hvalveiðum um heim allan.
Sea Shepherd mótmæla hvalveiðum um heim allan. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert