Yanis Varoufakis, fyrrverandi fjármálaráðherra Grikklands, hefur viðurkennt að lögð hafi verið drög að hliðstæðu greiðslukerfi ef til þess kæmi að ríkinu yrði sparkað úr evrusamstarfinu. Hann sagði að það hefði verið kæruleysi af sinni hálfu ef hann hefði ekki undirbúið „plan B“.
Samkvæmt ráðherranum fyrrverandi var greiðslukerfinu ætlað að brúa bil þar til hægt yrði að taka drökmuna aftur í notkun. Hann neitaði því hins vegar að hópurinn sem vann að þessari áætlun hefði starfað utan stjórnarinnar og á skjön við lög.
„Starfshópur fjármálaráðuneytisins starfaði eingöngu innan ramma stjórnvaldsstefnunnar og ráðleggingar hans miðuðu ávallt að því að þjóna almannahagsmunum, að virða lög landsins og að halda landinu innan evrusvæðisins,“ segir í tilkynningu frá Varoufakis.
Fyrr í dag birti Official Monetary and Financial Institutions Forum, sem hafði komið í kring símafundi milli Varoufakis og fjárfesta, upptöku af samtali milli hans og fjármálasérfræðinga 16. júlí sl. Þar heyrist Varoufakis m.a. segja að hann hefði fyrirskipað „innbrot“ í tölvukerfi fjármálaráðuneytisins í þeim tilgangi að taka afrit af gögnum til að finna út úr því hvernig haga mætti hönnun fyrrnefnds greiðslukerfis.
Að sögn Varoufakis var til skoðunar að stofna reikninga fyrir öll skattanúmer, án þess að segja nokkrum frá því. Beðið var eftir græna ljósinu þegar bankarnir lokuðu.
Áætlunin hefur verið harðlega fordæmd af grísku stjórnarandstöðunni, sem m.a. hefur kallað eftir því að Varoufakis verði ákærður fyrir landráð. Þykir hann hafa farið illa að ráði sínu í viðræðunum við lánadrottna ríkisins, en litlu munaði að þær enduðu með svokölluðum Grexit.
Fjármálaráðherra Slóvakíu hefur einnig tjáð sig um plottið og sakað Varoufakis um tvöfeldni. Petar Kazimar segir uppljóstrunina varpa ljósi á hversu óútreiknanlegur viðsemjandi Varoufakis var.
Sjálfur segir Varoufakis frásagnir fjölmiðla af áætluninni lagnsóttar.