Breskur prestur gaf sig í dag fram við lögreglu eftir að hafa stungið af í hádegishléi réttarhalda, þar sem hann var sakfelldur fyrir að hafa stolið nærri fimm milljónum frá kirkjunni.
Simon Reynolds gaf sig fram eftir hvatningar frá eldri klerkum. Interpol var á höttunum eftir Reynolds, en lögreglan óttaðist að presturinn myndi stinga af til meginlands Evrópu.
Tony Robinson, biskup í Wakefield, var einn þeirra sem hvöttu Reynolds til að gefa sig fram við lögreglu. „Simon, við minnum þig á að við biðjum fyrir þér og hugsum hlýlega til þín á þessum erfiðu tímann,“ sagði biskupinn. „Okkur er umhugað um þig og hvetjum þig til að setja þig í samband við yfirvöld og leyfa réttlætinu fram að ganga. Aldrei gleyma að við biðjum fyrir þér.“
Reynolds var fundinn sekur um að halda sjálfur eftir greiðslum fyrir hjónavígslur og útfarir, peningar sem hann hefði átt að láta renna til biskupsdæmisins.