Rússar gantast með kafbátsfundinn

Margir töldu þessa mynd frá því í október sýna rússneskan …
Margir töldu þessa mynd frá því í október sýna rússneskan kafbát í sænskri lögsögu. AFP

Rússneski ríkisfjölmiðillinn Sputnik gerir í dag kaldhæðnislegt grín að sænskum fjölmiðlum sem voru fljótir að gruna kafbátsflakið sem fannst í sænskri lögsögu í gær um að vera flakið af rússneskum kafbáti.

Í ljós kom hins vegar að um nær 100 ára gamlan kafbát væri að ræða. Sænskir fjölmiðlar ræddu við sérfræðing í öryggismálum og var hann spurður út í hvort að greina mætti rússnesk tákn á kafbátsflakinu. Sagði hann svo ekki vera.

Sjá frétt mbl.is: Kafbátsflak í sænskri lögsögu

„Um er að ræða stórkostlega frétt þótt hún hafi ekki fengist staðfest og heimildir skorti,“ er skrifað í frétt Sputnik.

„Þessi ótrúlega frétt minnir á dauðaleitina sem gerð var í sænskri lögsögu í fyrra að dularfullum rússneskum kafbáti sem aldrei fannst. Ef fólk vill lesa góðar spennusögur þá hvetjum við fólk frekar til þess að lesa bókina Maðurinn sem skreið út um gluggann og hvarf. Í þeirri bók kemur fyrir rússneskur kafbátur og dansandi Jósef Stalín,“ er skrifað á sænskumælandi vef Sputnik í mikilli kaldhæðni. 

Fjölmiðillin Sputnik er ríkisfjölmiðill sem Vladimír Pútín lét stofna fyrir skömmu. Fréttir miðilsins eru birtar í 34 löndum á 30 tungumálum. Sænskumælandi vefur hans var stofnaður í apríl 2015.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert