Brak sem skolaði á land á eyju í Indlandhafi í gær verður flutt til Frakklands þar sem það verður rannsakað. Nokkrir sérfræðingar segjast þess fullvissir að hluturinn sé úr væng Boeing 777-vélar, en ef svo er er nærri öruggt að um sé að ræða brot úr vél Malaysia Airlines sem hvarf sporlaust í fyrra.
Um er að ræða tveggja metra langan hlut sem fannst á eyjunni La Reunion, um það bil 4.000 kílómetrum frá þeim stað þar sem vélin í flugi MH370 er talinn hafa farist í mars á síðasta ári. 239 voru innanborðs þegar vélin hvarf.
Flugöryggissérfræðingurinn Xavier Tytelman og aðrir sérfræðingar hafa borið myndir af brakinu saman við hundruð mynda og teikninga af flugvélum og hafa komist að þeirri niðurstöðu að um sé að ræða svokallaðan „flaperon“, sem m.a. gera vélinni kleift að fljúga á minni hraða og lenda og taka á loft á styttri vegalengd, af Boeing 777-vél.
Similitudes incroyables entre le flaperon d'un #B777 et le débris retrouvé ce matin à #LaReunion... #MH370 ? pic.twitter.com/GDkzRLwi2h
— Xavier Tytelman (@PeurAvion) July 29, 2015
Aðrir vísindamenn segja vissulega mögulegt að straumar hafi borið brak úr vélinni alla þessa leið, en Najib Razak, forsætisráðherra Malasíu, hefur viljað fara varlega í sakirnar og sagt að líkur séu á að brotið sé úr Boeing 777 en tíminn muni leiða í ljós hvort hann sé úr vélinni í flugi MH370.
Áætlanir gera ráð fyrir að flogið verði með hlutinn frá Reunion til Frakklands á morgun. Líkur eru á að hann verði fluttur á tilraunastöð nærri Toulouse á laugardag. Samgönguráðherrann Liow Tiong Lai hefur varað fólk við því að hrapa að ályktunum áður en niðurstöður liggja fyrir.
Fregnirnar hafa vakið blendnar tilfinningar hjá aðstandendum þeirra sem voru um borð.
„Þetta er byrjað upp á nýtt, að stara á símann og bíða eftir fréttum,“ segir Jacquita Gonzales, eiginkona Patrick Gomes, sem var yfir áhöfninni.
Það hrærir við fólki að rifin ferðataska fannst á sama stað og brakið. „Þetta er mjög skrýtið, ég fæ bara hroll,“ sagði Johnny Begue, einn af þeim sem fann hlutinn á miðvikudag.
Yfirvöld í Ástralíu, sem hafa farið fyrir leitaraðgerðum, segja um mikilvæga þróun að ræða.
„Ef þetta er sannarlega brak úr MH370, þá er það ákveðinn endahnútur fyrir fjölskyldur fólksins um borð,“ segir samgönguráðherra Ástralíu, Warren Truss.
Leitin að vélinni hefur beinst að suðurhluta Indlandshafs en hvorki tangur né tetur af henni hefur fundist og í janúar sl. lýstu stjórnvöld í Malasíu því yfir að farþegarnir og áhöfn væru talin af.
Nokkur slys hafa orðið á svæðinu, m.a. brotlending vélar South African Airways nærri eyjunni Máritíus árið 1987, er ekki vitað til þess að Boeing 777 hafi farist þar.