Bjóða upp á víkinganám í Noregi

Frá víkingahátíð í Hafnarfirði.
Frá víkingahátíð í Hafnarfirði. mbl.is/Ómar

Seljord lýðháskólinn byrjar brátt með svokallaða víkingabraut, þar sem áhugasamir geta lært helstu handverksaðferðir víkinga til forna, svosem sverðasmíði, skartgripagerð og þaklagningu.

Á meðan náminu stendur munu nemendur fá að fagna hinum árvissu fornu siðum og jafnvel fórna dýrum yfir vetrarhátíðina.

„Við sjáum mikinn fjölda umsækjenda sem vilja nema við brautina af mismunandi ástæðum,“ segir skólastjóri Seljord, Arve Husby, í samtali við norska ríkisútvarpið. „Hjá sumum hefur áhuginn kviknað með sjónvarpsáhorfi á meðan aðrir vilja læra handverk víkinga. Við bjóðum upp á úrvals menntun en ef sjónvarpsþættir eru það sem vekur áhuga fólks, þá gildir það einu.“

Áhugi almennings á öllu því sem viðkemur víkingum hefur aukist undanfarin ár sökum sjónvarpsþátta á borð við Game of Thrones og Vikings. 

Helsti kennarinn við brautina er daninn Jeppe Nordmann Garly, sem segir sig vera „áhugavíking“, en hann hefur reynt að lifa stórum hluta lífs síns eins og víkingur til forna.

„Þú gætir sagt að ég sé fyrsti víkingakennarinn,“ segir Garly, sem sjálfur hefur gaman af sjónvarpsefninu sem laðar nemendur til skólans. „Ég hef þó meira gaman af Game of Thrones. Það eru of margar staðreyndavillur í Vikings.“

Nemendur við skólann munu einnig fá tækifæri til að róa víkingaskipum, læra leirmunagerð og trésmíði. Þá hyggja umsjónarmenn brautarinnar á að fara með nemendur í leiðangur til Jórvíkur á Englandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert