Pier Carlo Padoan, fjármálaráðherra Ítalíu, segist fylgjandi meiri samruna evruríkjanna. Vel komi til greina að koma á fót nýrri evrópskri stofnun, Evrópska gjaldeyrissjóðnum, EMF, sem myndi starfa með sambærilegum hætti og getu og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn.
„Myntbandalagið verður fyrr eða seinna að byggjast á sameiginlegum þáttum,“ segir hann.
„Ef það gerist ekki, þá verður myntbandalagið enn fast í miðri á.“
Hann segir aukna áhættudreifingu, bæði í efnahagslegu og pólitísku tilliti, vera af hinu góða. Það er það sem hafi styrkt myntbandalagið í gegnum árin.
Padoan er ekki sá eini sem hefur lagt til að sérstakur gjaldeyrissjóður verði settur á laggirnar. Stjórnvöld í Portúgal hafa barist fyrir því lengi. Sjóðurinn myndi fá vald til að taka við stjórn ríkisfjármála í þeim evruríkjum sem lenda í efnahagslegum vandræðum, til dæmis Grikklandi. Ríkin þyrftu því aðeins að eiga við eina stofnun, EMF, í stað þess að reiða sig á samþykki þinga í öllum evruríkjunum.
Hugmyndin að EMF var fyrst sett fram árið 2010 og studdu Þjóðverjar og Frakkar hana til að byrja með. Francois Hollande Frakklandsforseti hefur sjálfur sagt að þau ríki Evrópusambandsins sem noti evruna sem gjaldmiðil eigi að koma á laggirnar sameiginlegri ríkisstjórn sem og ríkissjóði sem lyti lýðræðislegu eftirliti af hálfu Evrópuþingsins.