Enn berast fréttir af meintu barnaníði breskra stjórnmálaskörunga, en í þetta sinn er um að ræða Edward Heath, sem var forsætisráðherra 1970-1974 og dó 2005. Svo háttsettur leiðtogi hefur ekki fyrr verið bendlaður við slík mál. Margaret Thatcher felldi Heath af leiðtogastóli Íhaldsflokksins árið 1975. Árið 1973 samdi Heath við Íslendinga um lausn deilna um útfærslu fiskveiðilögsögunnar. Og árið 1967 var Heath gestur á Pressuballinu, árlegum fagnaði Blaðamannafélags Íslands.
Blaðið Telegraph skýrði frá því í gær að maður á sjötugsaldri segði að Heath hefði nauðgað sér árið 1961, en þá var maðurinn 12 ára. Fram kom einnig að maðurinn segðist hafa verið beittur kynferðisofbeldi margsinnis af hálfu föður síns og barnaníðinga úr vinahópi hans. Hann hefði fengið far hjá Heath, sem þá var þingmaður, á A2-hraðbrautinni í Kent. Heath hefði síðan nauðgað honum í íbúð í Park Lane í London.
Fjórum árum síðar sagðist hann hafa séð mynd af Heath og áttað sig á hver hann væri. „Það skýrði margt fyrir mér eins og það að enginn trúði mér þegar ég sagði frá því sem gerðist í London. Ég var kallaður lygari, ég væri að ímynda mér þetta.“
Í fyrradag sagðist sjálfstæð rannsóknanefnd bresku lögreglunnar vera að kanna ástæður þess að á tíunda áratugnum var hætt við ákæru gegn konu sem rak hóruhús. Hún mun hafa hótað að saka Heath um barnaníð. Lögreglan í Wiltshire, þar sem Heath átti hús, hvatti í gær fólk sem áliti sig vera meðal fórnarlamba Heaths til að gefa sig fram.
En hvernig maður var Edward Heath? Hann var afburða tónlistarmaður, lék á orgel og var mikill siglingakappi, talaði ensku með sérkennilegum yfirstéttarhreim sem gert var grín að. Sjálfur sagðist hann eitt sinn ekki skilja Liverpool-mállýsku Bítlanna.
Heath var alræmdur fyrir hryssingslega framkomu og jafnvel dónaskap, margir sögðu hann ekki geta spjallað við fólk um dægurmál. Að sjálfsögðu fara þessir dómar þó eftir því hvort um andstæðinga eða aðdáendur í pólitík var að að ræða.
Heath var í raun aldrei við kvenmann kenndur og gafst Kay Raven, unnusta hans úr æsku, að lokum upp á platónsku sambandi þeirra. Mun hann hafa tekið því illa en sagði í sjónvarpsviðtali árið 1998 að hann hefði í mörg ár geymt mynd af henni. Mikið var hvískrað um meinta samkynhneigð hans alla tíð en sjálfur neitaði hann ætíð að ræða slík persónuleg mál. Menn eru yfirleitt á því að Heath hafi verið mikill einfari sem átti til að hunsa sessunaut sinn í veislu ef um konu var að ræða.
Getum hefur verið leitt að því að hneyksli sem varð þáverandi leiðtoga Frjálslynda flokksins, Jeremy Thorpe, að falli hafi hrætt Heath mjög og hann ákveðið að reyna að bæla niður samkynhneigð sína. Thorpe var sakaður um að hafa látið myrða fyrrverandi ástmann sinn. Hann var sýknaður árið 1979 en stjórnmálaferillinn var þegar á enda.
En Telegraph minnir einnig á að þegar árið 1955 hafi íhaldsmaður í borgarstjórn Lundúna sagt að leyniþjónustan, MI5, hefði varað Heath við því að flækjast um á almenningssalernum og reyna að tæla menn til kynmaka. Borgarfulltrúinn, Brian Coleman, hafði engar sannanir enda MI5 þögul sem gröfin.