Opinberir starfsmenn í Rússlandi förguðu hundruðum tonna af ávöxtum á föstudag í umdeildri aðgerð til að uppræta smygl á matvælum frá vesturlöndum.
Hafist var handa við að farga matvælum á fimmtudaginn eftir að Vladimir Putin, forseti landsins, skipaði fyrir um árs gömlu viðskiptabanni gegn vesturlöndum vegna Úkraínudeilunnar yrði framfylgt.
Ákvörðunin hefur vakið reiði meðal almennings sem annars er óalgengt að láti í sér heyra af krafti. Samkvæmt AFP hafa yfir 300 þúsund manns skrifað undir undirskriftalista þar sem opinberir starfsmenn eru beðnir um að gefa matinn frekar til sívaxandi hóps fólks undir fátæktarmörkum í landinu.
Matvælastofnun Rússlands kveðst hafa eyðilagt um 180 tonn af ávöxtum í dag, þ.á.m. ferskjur, nektarínur, kirsuber og vínber sem komu inn í landið í gegnum Hvíta Rússland en voru merkt eins og þeir hefðu komið frá Tyrklandi.
Um 319 tonnum af matvælum var fargað á fimmtudag, þar á meðal kjöti frá Ítalíu sem var brennt í ruslabrennslu á Pulkovo flugvellinum í Sankti Pétursborg.