Fyrstu sumarbúðir ungliðahreyfingar norska Verkamannaflokksins á Útey frá fjöldamorðunum í júlí 2011 hófust í dag.
Enn sjást göt eftir byssukúlur Breivik í kaffiteríunni á Útey þar sem 13 ungliða féllu en engu að síður reistu margir viðstaddra tjöld sín þar í morgun. Áður en formleg dagskrá og ræðuhöld hófust í dag fóru fram fjörleg fótbolta og blakmót undir vökulu auga vopnaðra lögreglumanna. Tveir lögreglubátar sigla í kringum eyjunna og gæta öryggis þátttakenda.
Yfir 1.000 ungliðar söfnuðust þar saman í dag, staðráðnir í að endurheimta eyjuna úr klóm þeirrar martraðar sem hryðjuverkamaðurinn Anders Behring Breivik skóp er hann skaut 69 manns til dauða á eyjunni.
Nokkrir þeirra sem lifðu árásirnar af eru á meðal þeirra sem dveljast munu á eynni um helgina. Að sögn fréttastofu AFP var andrúmsloftið afslappað þegar formaður ungliðahreyfingarinnar, Mani Hussaini, hélt opnunarræðu sína.
„Það er gott að vera kominn aftur heim,“ sagði Hussaini sem vísaði aðeins einu sinni beint til fjöldamorðana í ræðu sinni. „22. júlí mun að eilífu verða hluti af sögu Úteyjar en þessi dagur verður einnig hluti af sögu Úteyjar.“
Aðalritari Nato og forsætisráðherra Noregs á tímum árásarinnar Jens Stoltenberg var viðstaddur athöfnina og tísti. „Frábært að vakna í Útey og vera með svo mörgu virku ungu fólki.“