„Ég mun lifa öðruvísi lífi“

Líf Leah verður aldrei samt.
Líf Leah verður aldrei samt. Skjáskot af Sky News

Unglingsstúlka sem missti fótlegg eftir rússíbanaslys í Alton Towers skemmtigarðinum í Englandi fyrr í sumar segir að líf hennar verði aldrei samt vegna slyssins. Leah Washington, sem varð átján ára í síðasta mánuði ætlaði að fara í háskóla til þess að læra að verða kennari. Nú hefur hún þurft að fresta þeim áætlunum.

Sky News segir frá þessu.

Í sínu fyrsta viðtali eftir slysið sagði Washington það erfitt að fylgjast með vinum sínum undirbúa sig fyrir háskólanám þegar líf hennar hefur breyst svona mikið.

„Ég er stressuð fyrir framtíðinni. Líf mitt er í biðstöðu en vinir mínir halda áfram, keyra sína bíla og fara að heiman,“ sagði Washington í viðtalinu. „Ég mun lifa öðruvísi lífi. Áætlanir sem maður hefur hugsað út í þegar það kemur að framtíðinni, þær verða öðruvísi núna vegna þess sem gerðist.“

Washington missti vinstri fót sinn fyrir ofan hné eftir að vagnar í rússíbananum Smiler lentu í árekstri 2. júní. Hún er ein þeirra fimm sem slösuðust alvarlega í slysinu. Þeirra á meðal er kærasti hennar Joe Pugh.

Washington og Pugh voru fremst í vagninum þegar áreksturinn varð. Nokkru áður hafði rússíbaninn stoppað í tíu mínútur og haldið síðan áfram. Þegar Washington sá hinn vagninn sem var í veg fyrir þann sem hún var í vissi hún að „þetta myndi enda illa“.

„Ég horfði niður á vinstri fótinn minn sem var klesstur upp við stöng. Það var smá hold í sætinu og ég fann hvernig beinið mitt stakkst út,“ sagði Washington þegar hún lýsti eftirmálum árekstursins. 

„Ég öskraði, ég var skelfingu lostin. Joe reyndir að rósa mig niður. Ég sagði „Mamma mín mun fá hjartaáfall þegar hún heyrir af þessu.“

Á sjúkrahúsinu seinna sama dag grátbað hún lækni um að segja henni ekki að hún hafði misst fótinn. „Það leið langur tími áður en ég gat horft á sárin mín. Þegar ég gerði það fór ég að gráta.“

Washington er nú orðin þreytt á því að vera á hækjum og vill fá gervifót. Hún er ekki hrifin af því að vera í hjólastól þar sem að þá starir fólk á hana. „Ég er átján ára. Ég þoli ekki að vera ekki sjálfstæð. Afi minn bauð mér teppi í hjólastólinn og ég sagði „Nei ég er ekki níræð“. Líf mitt er bara langur listi af sjúkraþjálfun og læknisheimsóknum. En ég verð að halda áfram og lifa með því.“

Fréttir mbl.is:

Slösuðust alvarlega í rússíbana

Einn missti fót í rússíbanaslysinu

Fengu fyrstu bótagreiðslur

Alton Towers skemmtigarðurinn.
Alton Towers skemmtigarðurinn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert