Aðgerðarsinnar í Úganda héldu í gær gleðigöngu en aðeins er ár síðan að lög sem dæmdu samkynhneigða í lífstíðarfangelsi í landinu voru tekin úr gildi.
Fólkið dansaði, söng og bar regnbogafána í göngunni sem haldin var frétt fyrir utan höfuðborgina Kampala og var hún hápunktur hátíðarhalda sem hafa staðið yfir í viku.
Einn þeirra sem mætti í gönguna sagðist vona í samtali við BBC að gangan væri „skref í rétta átt" að réttindum samkynhneigðra í landinu.
En margir í Úganda eru á móti réttindum samkynhneigðra og er enn hægt að dæma fólk í fangelsi fyrir það eitt að vera samkynhneigt.
Fyrir aðeins ári síðan var það ólöglegt í landinu að „styðja samkynhneigð“ en lögin voru gerð ógild af hæstarétti landsins.
„Þetta sýnst um að reyna að sýna samfélaginu að ofbeldi, fordómar, áreitni og skömm gegn LGBT samfélaginu er slæmt,“ sagði Moses Kimbugwe en hann tók þátt í göngunni í gær. „Þannig að við erum hér til að senda skilaboð um að við erum til og við viljum réttindi eins og aðrir Úgandamenn.“
Einn af skipuleggjendum göngunnar, Richard Lusimbo, sagði í samtali við AFP að þetta snerist um að fagna „hver við erum“.
Eins og áður hefur komið fram hafa hátíðarhöldin staðið yfir í heila viku. Meðal þess var sérstakur dagur um trans-fólk og „Herra og frú Pride“ fegurðarsamkeppni.
Aðeins eru nokkrar vikur síðan að forseti Bandaríkjanna, Barack Obama talaði um mikilvægi réttindi samkynhneigðra í Afríku í opinberri heimsókn til álfunnar en sumir afrískir þjóðarleiðtogar halda því fram að samkynhneigð sé ekki hluti af afrískri menningu.