„Það er að verða vandamál að það skuli engin salerni vera á gönguleiðinni upp á Preikestolen. Það er saur í nánast hverjum runna. Á heitum dögum lyktar þetta illa,“ er haft eftir Audun Rake á fréttavefnum Thelocal.no en fjallið Preikestolen fyrir ofan Lysefjorden í vetsurhluta Noregs er einn vinsælasti ferðamannastaður landsins sem hundruð gesta heimsækja árlega.
Til þess að komast upp á Preikestolen þurfa ferðamenn að leggja í tveggja tíma fjallgöngu en engin salernisaðstaða er á gönguleiðinni. Rake segir að ástandið sé verst á þeim svæðum sem útbúin hafa verið sem tjaldsvæði. „Fólk lætur vaða þegar það þarf þess, þannig er það alls staðar. Það koma svo margir hingað að áhrifin eru mjög mikil.“ Sumir staðir séu meira notaðir en aðrir.
Fram kemur í fréttinni að unnið sé að lausn á vandanum og vonast sé til þess að salernisaðstaða verði komin upp meðfram gönguleiðinni áður en næsta sumar gengur í garð.