Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, tilkynnti í dag um áætlanir sem m.a. fela í sér lækkun launa ráðamanna og niðurfellingu skattaívilnana þeim til handa. Tsipras sagði að hið pólitíska kerfi þyrfti að bregðast við stemningunni í samfélaginu.
Laun ráðherra og yfirmanna stofnanna verða endurskoðuð og samkvæmt fréttastofunni ANA verður 25% tekjuskattsafsláttur þingmanna felldur niður. Þá verður einnig felld niður undanþága frá tekjuskatti sem þingmenn hafa notið vegna tekna sem þeir hafa af þingnefndarsetu.
Gert er ráð fyrir að laun ráðherra, undirráðherra og annarra hátt settra starfsmanna ríkisins verði lækkuð um 15%.
Stjórnvöld í Grikklandi eiga nú í viðræðum við lánadrottna sína um þriðja björgunarpakkann til handa ríkinu. Grikkir hafa þegar þurft að kyngja því að hækka virðisaukaskatt en til umræðu nú er m.a. hærri skattur á eldsneyti til bænda.
„Þegar niðurfelling skattaívilnana fyrir bændur er á samningaborðinu getum við ekki horft fram hjá okkar eigin skattaívilnunum,“ sagði Tsipras þegar hann tilkynnti ráðamönnum um breytingarnar.