Allar líkur eru á að Rússa muni bæta við sjö löndum á lista sinn yfir þau ríki sem eru beitt viðskiptabanni. Ísland er eitt þessara landa, en enn er þó óljóst hvort þetta muni hafa áhrif á makrílsölu Íslendinga til Rússlands. Áhrif þess gætu orðið talsverð fyrir íslenska útflytjendur, þar sem Rússland er stærsti markaðurinn fyrir makrílafurðir Íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja.
Varaforsætisráðherra Rússlands, Arkady Dvorkovich, sagði í samtali við RIA fréttastofuna í dag að Rússlandi væri nú að horfa til þess að bæta fleiri löndum á listann.
Rússneska fréttastofan Tass hefur eftir starfsmanni landbúnaðarráðuneytisins þar í landi að búið sé að senda tillögur til ríkisstjórnarinnar varðandi hvaða afurðir bannið ætti að ná til. Áður hafði komið fram að allar líkur væru á því að ef Rússa bættu fleiri löndum á listann, þá myndi viðskiptabannið ná yfir sömu vörur og frá þeim ríkjum sem nú þegar eru beitt viðskiptabanni af hálfu Rússlands. Þar með myndi lokast fyrir útflutning á makrílafurðum frá Íslandi til Rússlands.
Rússland hafði áður sett á viðskiptabann gagnvart ríkjum Evrópusambandsins og öðrum vesturveldum vegna viðskiptaþvingana þeirra gagnvart Rússlandi eftir aðkomu þeirra að stríðsátökum í Úkraínu. Þau lönd sem nú er rætt um að bæta við á listann, auk Íslands eru Svartfjallaland, Albanía, Noregur, Lichtenstein og Úkraína.
Starfsmaður ráðuneytisins sem Tass ræddi við sagði að í sambandi við Ísland væri þó enn óljóst hvort mögulegt viðskiptabann myndi ná yfir „ákveðnar fiskitegundir.“
Mörg íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa lýst áhyggjum vegna málsins, en Íslendingar selja gríðarlega mikið af sjávarafurðum til Rússlands. Þannig fór um helmingur makrílafurða árið 2013 til Rússlands og í heild er Rússland stærsti uppsjávarmarkaður Íslendinga. Í fyrra voru seld 120.000 tonn af uppsjávarafurðum þar, en um er að ræða makríl, síld og loðnu.