Coca-Cola til varnar sykrinum

AFP

Coca-Cola hefur styrkt samtökin Global Energy Balance Network um jafnvirði hundruð milljóna króna, en samtökin flytja þann boðskap að allt of mikil áhersla sé lögð á slæm áhrif sykurs.

Offitusérfræðingar hafa lengi fullyrt að við fitnum vegna þess að við borðum of mikið og er sykurneysla ekki síst sögð varhugaverð. Líkamshreyfing hafi lítil áhrif á fitumagnið.

New York Times hefur nú greint frá því að Coca-Cola styrki samtök sem segja að offitufaraldurinn komi til vegna hreyfingarleysis, en ekki vegna sykurneyslu. Samtökin breiða út boðskapinn í vísindaritum og á samfélagsmiðlum, að sögn New York Times.

Samtökin halda því fram að þeir sem hafa áhyggjur af þyngd sinni eigi fremur að huga að því að hreyfa sig meira, í stað þess að draga úr neyslu sinni á sykruðum matvælum, líkt og Coca-Cola.

Fram kemur í umfjöllun blaðsins að vefsíða samtakanna sé skráð undir nafni Coca-Cola og stýrð af fyrirtækinu. James O Hill, forseti samtakanna, sagði þó að vefsíðan væri skráð undir nafni Coca-Cola vegna þess að meðlimir samtakanna hafi ekki vitað hvernig þeir ættu að skrá hana. Hann ítrekaði að samtökin væru óháð fyrirtækinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert