Stjórnvöld í Suður-Kóreu hafa aukið viðbúnað sinn við landamæri Norður-Kóreu og fjölgað þar meðal annars hermönnum. Foresti landsins krefst þess að nágrannar sínir í norðri biðjist afsökunar á að hafa komið fyrir jarðsprengjum á hlutlausa svæðinu svokallaða, við landamærin.
Suður-kóresk stjórnvöld fullyrða að norður-kóreskir hermenn hafi laumað sér yfir landamærin og komið fyrir sprengjum á svæðinu fyrir nokkrum dögum. Tveir suður-kóreskir hermenn stigu á sprengjurnar í seinustu viku með þeim afleiðingum að annar þeirra missti báðar fæturna og hinn annan fótinn.
Í kjölfarið ákváðu stjórnvöld í suðri að kveikja á kraftmiklum hátölurum, sem eru við landamærin, en þeir senda frá sér skilaboð sem fordæma alla ögrun við landamærin. Ekki hefur verið kveikt á hátölurunum í meira en áratug, að því er segir í frétt AFP.
Norður-Kóreumenn eru sérstaklega viðkvæmir fyrir slíkum herferðum. Seinast þegar stjórnvöld í suðri hótuðu að kveikja á hátölurunum - árið 2010 - lofuðu norður-kóresk stjórnvöld að skjóta sprengikúlum á þá.
Talsmaður suður-kóreska varnarmálaráðuneytisins segir að herinn muni bregðast við án tafar ef norður-kóreski herinn ákveður að hefja skothríð á hátalarana. Hann biðlar til íbúa við landamærin um að gæta varkárni.