Grímuklæddir byssumenn skutu að minnsta kosti 20 manns til bana í röð skotárása í úthverfum Sao Paulo, stærstu borgar Brasilíu, í nótt.
Samkvæmt fréttamiðlum í Brasilíu áttu skotárásirnar sér stað á tíu stöðum á Ocasco svæðinu, auk tveggja árása í Barueri. Allar áttu árásirnar sér stað innan tveggja og hálfs klukkutíma. Þar hefur einnig komið fram að yfir 20 hafi látist.
GloboNews sjónvarpsstöðin birti í dag myndir úr öryggismyndavél þar sem má sjá hóp grímuklæddra manna koma inn á bar og skipa viðskiptavinum að setja hendur upp í loft áður en þeir skjóta þá.
Talsmaður lögreglu á svæðinu hefur staðfest að árásirnar hafi verið mannskæðar, en lögregla hefur ekki staðfest tölu látinna. Þá sagði talsmaður öryggisstjóra borgarinnar að árásirnar væru óvenjulegar.
Borgarstjóri Osasco, Jorge Lapas, sagði myndbandið styðja þá kenningu að morðin hefðu verið hefnd fyrir dauða lögreglumanns. „Við viljum gera ráðstafanir til þess að ástandið verði ekki verra á næstu dögum,“ sagði hann.