Skaut föstum skotum að Jeb Bush

Hillary Clinton.
Hillary Clinton. AFP

Hillary Clinton, sem býður sig fram í forvali Demókrataflokksins fyrir forsetakosningar í Bandaríkjunum á næsta ári, skaut í dag föstum skotum að andstæðingi sínum, Jeb Bush, og sagði að hann mætti ekki gleyma því hver bæri ábyrgð á óstöðugleikanum í Írak.

Á þriðjudaginn sakaði Bush, sem býður sig fram í forvali Repúblikanaflokksins fyrir kosningarnar, ríkisstjórn Baracks Obama, forseta Bandaríkjanna, um að hafa dregið herlið landsins frá Írak árið 2011 með miklum og þungbærum kostnaði.

Clinton benti honum hins vegar á að það hefði verið bróðir hans, George W. Bush, þáverandi forseti, sem samdi við stjórnvöld í Írak um að draga herliðið til baka.

Mikil ólga hefur verið í landinu eftir að Bandaríkjamenn fóru í stríð við Írak árið 2003.

Bush sagði að ákvörðunin um að draga herliðið til baka árið 2011 hefði verið „afrifarík mistök“. Í kjölfarið hefði spenna í landinu aukist og hryðjuverkasamtökin Ríki íslams hafið innreið sína þar.

Gagnrýndi hann sérstaklega Hillary, sem var utanríkisráðherra í ríkisstjórn Obama á árunum 2009 til 2013.

Hún sagði hins vegar í dag að Bush ætti að horfa á heildarmyndina, þar á meðal samkomulag sem bróðir hans, George W. Bush, náði við ríkisstjórn Maliki í Írak um að bandarísk stjórnvöld myndu draga herlið sitt til baka árið 2011.

„Ég get aðeins velt því fyrir mér hvort hann hafi ekki vitað það eða hafi haldið að fólk hafi ekki munað eftir því,“ sagði Hillary.

Jeb Bush hefur sjálfur sagt að hann hefði ekki heimilað hina umdeildu innrás í Írak árið 2003.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka