Íbúar í Papúa-héraði, austast í Indónesíu, segja að indónesíska farþegavélin, sem flugmálayfirvöld misstu samband við í morgun, hafi brotlent í fjallshlíð. 54 manns eru um borð í vélinni.
Samgönguráðherra Indónesíu segir að brak vélarinnar hafi fundist á Bintang hálendinu, rétt við japönsku borgina Oksibil, þar sem vélin átti að lenda.
Ekki er vitað hvort einhver farþeganna hafi lifað af.
Íbúarnir fundu brakið og sögðu að vélin hefði brotlent á fjalli í Okbape, sem er í um 24 kílómetra fjarlægð frá Oksibil.
Vélin var á leið frá Sentani flugvellinum í Jayapura, höfuðborg Papúa-héraðs, og til borgarinnar Oksibil. Flugið átti að taka 45 mínútur en vélin hafði verið í loftinu í tæpan hálftíma áður en samband við hana slitnaði.
54 manns eru um borð í vélinni, þar á meðal fimm börn og fimm áhafnarmeðlimir.
ATR 42 flugvél indónesíska flugfélagsins Trigana Air missti samband við flugumferðarstjórn rétt fyrir klukkan þrjú að staðartíma í dag, klukkan sex í morgun að íslenskum tíma.
Blásið var til umfangsmikillar leitar, en henni var síðan frestað vegna myrkurs. Um 150 björgunarmenn voru komnir á vettvang, að sögn Sky News.
ATR-42 vélin var byggð í Frakklandi og Ítalíu, en hún er 27 ára gömul.
Flugvélar félagsins hafa lent í fjórtán alvarlegum slysum síðan það hóf starfsemi 1991. Tíu vélanna hafa eyðilagst.
Trigana Air er eitt fjögurra indónesískra flugfélaga sem er meinað að starfa innan Evrópusambandsins af öryggisástæðum.
Frétt mbl.is: Flugvél með 54 manns horfin