Borgarstjóri Liverpool í Englandi, Joe Anderson, segist vera stoltur af því að nýnasistar hafi verið þvingaðir til að hætta við „Hvítra manna marseringu“ um götur borgarinnar í gær. Liverpool echo greindi frá málinu.
Hann segir viðbrögð aðgerðasinna við fyrirhugaðri göngu hafa verið til fyrirmyndar og sýni að Liverpool verði ekki ógnað af nýnasistum.
Nýnasistar höfðu áætlað að um 150 manns myndu mæta í gönguna þeirra. Þegar á hólminn var komið mættu mun fleiri andstæðingar þeirra á fyrirhugað göngusvæðið, sem varð til þess að göngunni var aflýst.
„Ég held að viðbrögð borgarbúa hafi ekki verið óvænt. Mér finnst þegar okkur er ógnað á einhvern hátt þá stöndum við saman gegn ógninni,“ segir Anderson.