Gríska ríkisstjórnin samþykkti í dag að þýska fyrirtækið Fraport-Slentel tæki við rekstri fjórtán flugvalla í Grikklandi til næstu fjörutíu ára. Samningurinn er metinn á 1,23 milljarða evra, sem jafngildir um 181 milljarði íslenskra króna.
Um er að ræða flugvelli á mörgum af helstu ferðamannastöðum Grikklands.
Seinasta ríkisstjórn Grikklands hafði náð samkomulagi við Fraport en ákveðið var að bíða með málið eftir að ríkisstjórn Alexis Tsipras, leiðtoga vinstriflokksins Syriza, komst til valda í janúarmánuði.
Gríska ríkisstjórnin staðfesti í dag að hún hefði samþykkt einkavæðinguna fyrir sitt leyti. Í tilkynningu frá Fraport sagði hins vegar að enn ætti eftir að skrifa undir samninginn. Viðræður væru enn í gangi.
Fraport „á ekki von á því að gengið verði frá samkomulagi á þessu ári,“ sagði talsmaður fyrirtækisins í samtali við AFP.
Þetta er fyrsta einkavæðingin sem tilkynnt er um eftir að fjármálaráðherrar evruríkjanna samþykktu á föstudaginn að veita Grikkjum 86 milljarða evra lán gegn ströngum skilyrðum.
Ríkisstjórn Tsipras hefur fallist á að selja ríkiseignir í samræmi við samkomulagið við lánardrottna Grikklands. Leigan á flugvöllunum fjórtán er liður í því samkomulagi.
Lánardrottnarnir hafa meðal annars gert þá kröfu að grísk stjórnvöld setji á stofn sérstakan fimmtíu milljarða evra sjóð um ríkiseignir sínar.
Fraport hyggst verja að minnsta kosti 330 milljónum evra í endurbætur og framkvæmdir við flugvellina fjórtán á næstu fjórum árum. Alls munu þeir verja 1,4 milljarða evra í flugvellina á fjörutíu ára samningstímanum.
Fraport rekur meðal annars alþjóðaflugvöllinn í Frankfurt í Þýskalandi.