Komu í veg fyrir „hræðilegan harmleik“

Lögreglumenn rannsaka vettvang á lestarstöðinni í Arras í kvöld.
Lögreglumenn rannsaka vettvang á lestarstöðinni í Arras í kvöld. AFP

Tveir lestarfarþeganna sem særðust þegar þeir yfirbuguðu vopnaðan mann í dag eru sagðir vera bandarískir sjóliðar. Innanríkisráðherra Frakklands lofaði framgöngu mannanna og sagði þá hafa komið í veg fyrir hræðilegan harmleik.

Atvikið átti sér stað innan landamæra Belgíu í hraðlest sem var á ferð á milli Amsterdam og Parísar. Franskir fjölmiðlar segja að Bandaríkjamennirnir tveir hafi heyrt árásarmanninn hlaða vopn inni á salerni lestarinnar og þeir hafi gengið á hann þegar hann kom út. Árásarmaðurinn er sagður hafa verið vopnaður Kalashnikov-riffli, hníf, sjálfvirkri skammbyssu og skothylkjum.

Þrír særðust í átökum við árásarmanninn, sem er 26 ára gamall Marokkóbúi, tveir alvarlega. Annar þeirra varð fyrir byssuskoti, annar hlaut stungusár. Hryðjuverkasérsveit hefur tekið við rannsókn málsins en heimildir herma að maðurinn sé kunnur frönsku leyniþjónustunni. Hann hefur fram að þessu neitað að ræða við lögregluna í Arras, franska bænum þar sem hann var handtekinn.

Charles Michel, forsætisráðherra Belgíu, kallaði árásina hryðjuverkaárás. Bernard Cazeneuve, innanríkisráðherra Frakklands, hélt þegar í stað til Arras þegar fregnir bárust af árásinni. Lofaði hann framgöngu bandarísku sjóliðanna. Þeir hefðu sýnt af sér sérstakt hugrekki við erfiðar aðstæður.

„Án yfirvegunar þeirra hefðu við getað staðið frammi fyrir hræðilegum harmleik,“ sagði Cazeneuve.

Fyrri frétt mbl.is: Yfirbuguðu árásarmann í lest

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert