N-Kórea undirbýr stríð

AFP

Leiðtogi Norður-Kóreu, Kim Jong-Un, fyrirskipaði hermönnum í fremstu víglínu að vera í viðbragðsstöðu í dag á sama tíma og  Suður-Kóreu voru birtir úrslitakostir varðandi útsendingar á áróðri á landamærum ríkjanna. Ef útsendingum verði ekki hætt þá muni N-Kórea beita hervaldi.

Spenna hefur ríkt á Kóreuskaganum undanfarinn sólarhring eftir að herir landanna skiptust á skotum í gær. Hámarksviðbúnaður er hjá herafla Suður-Kóreu.

Kim Jong-Un hefur áður gefið svipaðar fyrirskipanir og nú. Til að mynda þegar hann lýsti yfir stríði á milli ríkjanna árið 2013. Tæknilega séð hafa ríkin tvö átt í stríði í 65 ár en Kóreustríðinu 1950-53 lauk með vopnahléi sem hefur ekki enn verið stafest með formlegu friðarsamkomulagi.

Sjaldgæft er að herir Kóreuríkjanna skiptist á skotum, enda gera ráðamenn beggja ríkjanna sér grein fyrir því að slíkt geti leitt til þess að hörð átök blossi upp.

Vaxandi spenna hefur verið á landamærunum að undanförnu. Fyrr í sumar særðust tveir suðurkóreskir landamæraverðir þegar jarðsprengja sprakk. Segja Suður-Kóreumenn að norðurkóreskir hermenn hafi komið sprengjunni fyrir. Á mánudag hófust síðan sameiginlegar heræfingar Suður-Kóreu og Bandaríkjanna, en þar eru m.a. æfð viðbrögð við hugsanlegri kjarnorkuárás Norður-Kóreumanna. Ráðamenn í Pjongjang hafa brugðist ókvæða við æfingunum og krafist þess að þeim verði hætt.

Sérfræðingar segja óljóst hverjar ástæður eldflaugaskotsins hafi verið. Hugsanlega hafi verið um mistök að ræða en líklegra sé þó að Norður-Kóreumenn hafi með þessu viljað láta í ljós vanþóknun sína vegna þróunar mála undanfarið.

„Það kemur á óvart að eldflaug skuli hafa verið skotið yfir landamærin, vegna áhættunnar sem það hefur í för með sér,“ sagði Dan Pinkston, sérfræðingur hjá stofnuninni International Crisis Group í Seoul. „Hefði flaugin lent á hernaðarmannvirkjum eða valdið manntjóni hefðu viðbrögðin orðið mun ákveðnari.“

Norður-Kórea skaut í nóvember 2010 fallbyssukúlum á suður-kóresku eyjuna Yeonpyeong. Þá létu tveir óbreyttir borgarar og tveir hermenn lífið. Suður-Kóreumenn svöruðu með fallbyssuárás á norðurkóreskar herbúðir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert