„Ég er mjög stoltur af vini mínum“

Anthony Sadler, Alek Skarlatos og Chris Norman með orðurnar sínar.
Anthony Sadler, Alek Skarlatos og Chris Norman með orðurnar sínar. AFP

Þrír mannanna sem tóku þátt í að yfirbuga byssumanninn í lest milli Amsterdam og Parísar í gær tóku á móti orðum í gær frá bæjaryfirvöldum í Arras þar sem lestin stöðvaði eftir árásina.

Þeir Ant­hony Sa­dler, Alek Skarlatos og Chris Norm­an sögðust allir finna fyrir miklum létti yfir því að ekki hafi farið verr en tveir slösuðust í átökunum, hinn bandaríski Spencer Stone og franskur farþegi sem er sagður hafa tæklað manninn fyrstur. Hvorugur mun þó í lífshættu.

„Ég er mjög stoltur af vini mínum, að hann hafi brugðist við svona snögglega og af svona miklu hugrekki,“ sagði Sadler um Stone við athöfnina í gær þar sem blaðamenn fengu að spyrja þremenningana spurninga. Stone sneri manninn niður og hélt honum á meðan að hinir afvopnuðu og kýldu hann þar til hann missti meðvitund.

„Jafnvel eftir að hafa sjálfur slasast fór hann að hjálpa hinum manninum sem blæddi úr. Án hans hjálpar hefði maðurinn dáið, honum blæddi ákaflega úr hálsinum en hann fór bara yfir til hans og bjargaði lífi hans á meðan honum blæddi sjálfum.“

Í ljós hefur komið að skammbyssa sem maðurinn var með sat á sér og telja mennirnir að annars hefði sagan getað endað allt öðruvísi. Maðurinn var einnig vopnaður riffli og dúkahníf og náði að skera Stone illa í átökunum. „Við vissum ekki að byssan hans virkaði ekki, Spencer hljóp bara samt og ef einhver hefði verið drepinn þá hefði það verið hann. Við erum mjög heppin að enginn hafi verið drepinn, sérstaklega Spencer.“

Heyra má lýsingu þremenninganna af atvikum í myndbandinu hér að neðan.

<iframe allowfullscreen="" frameborder="0" height="315" src="https://www.youtube.com/embed/R7uk80KVlgQ" width="560"></iframe><div id="embedded-remove"> </div>
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert