Þegar hinn danski Marcus Vestergaard Pedersen fæddist árið 1996 vissi móðir hans strax að ekki væri allt með felldu. Marcus fæddist eftir allt inn í ljóshærða fjölskyldu en var með kolsvart hár og mun dekkri húðlit en ættingjar hans.
Marcus fæddist inn í ranga fjölskyldu vegna mistaka á glasafrjóvgunarstofu.Til stóð að frjóvga egg móður Marcusar, Marianne Sørensen, með sæði eiginmanns hennar. En eitthvað fór úrskeiðis.
„Mín fyrsta hugsun var að hér hefði eitthvað gerst. En ég vissi ekki hvað. Ég þorði ekki að gera neitt við því ég var svo hrædd um að einhver myndi koma og taka hann af mér,“ segir Marianne. Framan af útskýrði hún útlit sonar síns með því að hún ætti dökkhærða fjölskyldu en þegar hann var þriggja ára sýndi DNA próf að hvorki hún né faðir hans eru líffræðilega skyld honum. Þau ákváðu hinsvegar að segja honum ekki frá því.
Berlingske hefur gert máli Marcusar skil frá því í júlí en mistök spítalans hafa svo sannarlega dregið dilk á eftir sér fyrir hann og fjölskyldu hans. Þar að auki hefur það vakið upp grun um að Marcus sé alls ekki eini Daninn sem fæðst hefur inn í ranga fjölskyldu en frá árinu 2007 hefur fimm sinnum verið tilkynnt um grun um áþekk mistök.
Þrátt fyrir að eiga ástríka fjölskyldu hefur líf Marcusar alls ekki verið dans á rósum. Hann var lagður í mikið einelti sem barn vegna húðlitar síns og þurfti að skipta margsinnis um skóla.
„Mér fannst margt svolítið furðulegt. Og ég fékk líka að heyra það á hverjum degi. Í gegnum bæði andlegt og líkamlegt ofbeldi. Þau sögðu að mamma mín væri hóra og að foreldrar mínir elskuðu mig ekki því ég væri ekki barnið þeirra,“ rifjar Marcus upp.
Hann var orðinn 13 ára þegar foreldrar hans sögðu honum sannleikann. Glasafrjóvgunarstofan hafði ruglað frjóvguðu eggi móður hans við egg sem tilheyrði konu sem er að öllum líkindum írönsk. Grunur um mistökin kom upp þegar móðir hans var orðin ólétt en stofnunin ákvað að greina foreldrunum ekki frá því og mat það sem svo að 50% líkur væru á því að rétt egg hefði verið notað. Forsvarsmenn stofnunarinnar hafa sagt það „afar ólíklegt“ að foreldrar Marcusar eigi líffræðilegt barn í faðmi annarra foreldra þar sem íranska konan hafi aldrei orðið ólétt með hjálp stofnunarinnar.
Marcus segist oft hafa velt því fyrir sér af hverju hann væri svo ólíkur foreldrum sínum. Hann segir það ekki hafa verið áfall þegar foreldrar hans sögðu honum hið sanna heldur hafi það frekar verið eins og opinberun.
Marcus er afar reiður glasafrjóvgunarstofunni og lækninum sem gerði mistökin. Gróft einelti og vinaleysi hefur leitt af sér mikið þunglyndi og þegar honum líður sem verst vill hann hreint ekki lifa lengur.
„Það hefði verið svo gott ef ég væri barnið þeirra. Hefði þeirra gen. Til að vera alveg heiðarlegur held ég að þetta líf hefði verið betra ef því hefði ekki verið lifað. Það meina ég í alvöru.“
Árið 2007 voru danskar heilbrigðisstofnanir skyldaðar til að tilkynna heilbrigðisyfirvöldum sérstaklega um grun um víxl á eggjum og/eða sæði. Frá þeim tíma hefur fimm sinnum verið tilkynnt um slík mistök.
Berlingske segir Ciconia í Árósum hafa verið glasafrjóvgunarstofuna sem víxlaði eggjum móður Marcusar og írönsku konunnar. Þar fyrir utan hafi glasafrjóvgunardeild Ríkissjúkrahússins skilað tveimur skýrslum vegna áþekkra mála og stofnunin Dansk Fertilitetsklinik einni.
Í síðastnefnda tilfellinu leitaði erlent par til stofnunarinnar. Konan fæddi barn eftir að hafa farið í glasafrjóvgun en seinna kom í ljós að barnið var rangfeðrað. Maki konunnar fór í mál við stofnunina vegna málsins árið 2012 og hefur enn ekki fallið dómur. Í skýrslu stofnunarinnar segir að þrjár skýringar geti verið á málinu, í fyrsta lagi að sæði mannsins hafi verið víxlað við annað sæði, í öðru lagi að því hafi verið blandað við annað sæði og í þriðja lagi að konan hafi haldið framhjá manninum.
Í tveimur tilfellum sem Ríkissjúkrahúsið greinir frá í skýrslum sínum er talið að egg hafi verið frjóvguð með röngu sæði. Árið 2011 kom grunurinn upp áður en egginu var komið fyrir í konunni og var egginu hent. Í apríl á þessu ári kom hinsvegar upp grunur um að sæði tveggja karlmanna hefði verið víxlað eftir að frjóvguðum eggjunum hafði verið komið fyrir í konum þeirra. Í báðum tilfellum var framkvæmd fóstureyðing með þar til gerðum pillum.
Marcus vill gjarnan finna líffræðilega móður sína en það er hægara sagt en gert. Þegar hún leitaði á glasafrjóvgunarstofuna árið 1995 voru allir eggja- og sæðisgjafar nafnlausir hvort sem þeir vildu vera það eða ekki. Frá árinu 2012 hafa gjafar getað valið að vera ekki nafnlausir. Þrátt fyrir að líffræðileg móðir Marcusar hafi ekki gefið egg sitt af fúsum og frjálsum vilja til annarrar konu er hún vernduð samkvæmt lögum þess tíma. Sömu nafnleysislög gilda um börn sem fæðast fyrir sakir gjafaeggs eða -sæðis og er lögunum ætlað að koma í veg fyrir að börn eða gjafar þurfi skyndilega að hitta fjölskyldumeðlim án þess að kæra sig um það.
Lögin gera hinsvegar ekki ráð fyrir aðstæðum á við mál Marcusar. Reglurnar um nafnleysi gjafa koma í veg fyrir að glasafrjóvgunarstofan megi hafa samband við líffræðilega móður hans til að athuga hvort hún vilji leyfa honum að hafa samband við sig. Ekkert bendir til að líffræðileg móðir Marcusar viti að hún eigi afkomanda og stofnunin má ekki segja henni það.
Það eina sem Marcus veit fyrir víst er að konan er fædd árið 1955 og er því 59 eða 60 ára í dag. Hún kom frá Íran til Danmerkur þann 9. mars 1995 til þess að fara í glasafrjóvgun og ferðaðist þaðan til Noregs til þess að búa hjá systur sinni eftir aðgerðina. Stofnunin hefur ekki gefið upp hvort hún sé af írönskum uppruna. Marcus hefur m.a. farið í sjónvarpsviðtöl hjá norskum fjölmiðlum og sett upp sérstaka Facebook síðu í þeirri von að ná sjálfur að finna konuna. Stofnunin greiddi honum skaðabætur vegna málsins þegar hann var 15 ára gamall en neitaði að aðstoða hann frekar.
„Þau sópuðu öllu undir teppið. Við komumst að því að við eigum heima undir teppinu. Nú er ég að reyna að skríða undan því,“ segir Marcus og kveðst sérlega svekktur yfir kæruleysi stofnunarinnar gagnvart leit hans að uppruna sínum.
„Ég er ekki IKEA stóll sem er búið að setja í rangan kassa. Þetta snýst um mannslíf. Ef maður í húsgagnabransanum uppgötvar mistök þegar sendingin er hálfnuð á leiðarenda er kannski eðlilegt að afturkalla hann og segja: Þið getið fengið hann á hálfvirði. En svoleiðis kemur maður ekki fram við manneskjur. Við höfum fengið peningana endurgreidda en við ætlum að eiga stólinn, þó þetta sé rangur stóll.“
Umfjöllun þessi er unnin upp úr fréttum Berlingske um mál Marcusar. Hægt er að lesa fréttir miðilsins af málinu með því að smella hér.