Flugmaðurinn sem flaug herþotunni af gerðinni Hawker Hunter sem hrapaði á hraðbraut þegar hún var að leika listir sínar á flugsýningu í Sussex í gær lifði slysið af. Hann liggur nú alvarlega slasaður á spítala og er talinn vera í lífshættu. Hann var fluttur á Royal Sussex spítalann með þyrlu í gær. BBC greinir frá þessu.
Nafn flugmannsins hefur einnig verið gert opinbert. Hann heitir Andy Hill og er fyrrum flugmaður í breska flughernum. Er hann sagður vera afar reyndur flugmaður.
Sjá frétt mbl.is: Hrapaði í miðri flugsýningu
Sjö manns létust í slysinu að minnsta kosti. Í dag heldur leitin að fleiri fórnarlömbum áfram á svæðinu.
Eins og sást á myndbandi af slysinu í gær var flugmaðurinn að fljúga í bakfallslykkju þegar slysið varð. Sjónarvottur sagði við fjölmiðla í gær að hann hefði ekki tekið eftir því að flugmaðurinn hafi náð að skjóta sér út úr vélinni í fallhlíf.
Sjá frétt mbl.is: Óttast að fleiri hafi látist
Hér má sjá myndband af slysinu. Mbl.is vill benda fólki á að myndbandið getur vakið óhug.