Rúmlega 7.000 flóttamenn, aðallega frá Sýrlandi, ferðuðust í gegnum Makedóníu og Serbíu á sunnudaginn á leið til Vestur-Evrópu. Daginn áður bjargaði ítalska landhelgisgæslan 4.400 flóttamönnum úr 22 bátum í Miðjarðarhafinu á laugardaginn. Flóttamannavandinn í Evrópu hefur ekki verið eins mikill síðan eftir seinni heimstyrjöld og lítur allt út fyrir að hann verði enn meiri á næstu misserum.
Eins og áður hefur komið fram fór rúmlega 7.000 karlar, konur og börn í gegnum Makedóníu inn í Suður-Serbíu um helgina. Gert er ráð fyrir því að fleiri komi næstu daga. Þessi mikli fjöldi komst í gegnum Makedóníu eftir að lögregla þar í landi opnaði að nýju landamærin við Grikkland og gerði þar með þúsundum manna kleift að ferðast til Serbíu en markmið þeirra er að komast til landa innan Evrópusambandsins.
En vandamálið er ekki aðeins þar. Ítölsk yfirvöld hafa greint frá því að á laugardaginn var 4.400 flóttamönnum bjargað úr 22 bátum í Miðjarðarhafinu. Er þetta stærsta björgun landhelgisgæslunnar á einum degi í mörg ár. Þessir flóttamenn bætast við þá 260.000 flóttamenn sem hafa komist til Evrópu í gegnum Miðjarðarhafið á þessu ári. Ekki hafa þó allir komist alla leið en um 2.500 flóttamenn hafa drukknað í sjónum á leið til Ítalíu og Grikklands á árinu.
Þar að auki hafa mörg hundruð manns reynt að komast til Bretlands með því að smygla sér um borð vörubíla og hafa sumir meira að segja reynt að ganga í gegnum Ermarsundsgöngin.
Samkvæmt opinberum tölum frá UNHCR hafa flestir flóttamenn á Ítalíu komið frá Eritiu á árinu eða tæplega 26.000 talsins. Þar að auki eru Nígeríumenn tæplega 12.000 talsins, Sómalar 7.538, Súdanar 5.656 og Sýrlendingar 5,495. Töluvert fleiri Sýrlendingar hafa komist til Grikklands í gegnum Miðjarðarhafið eða rúmlega 88.000 talsins. Jafnframt hafa rúmlega 32.000 Afganar komist til Grikklands og 9.700 Albanar.
Yfirvöld í Makedóníu lýstu yfir neyðarástandi á fimmtudaginn vegna fjölda flóttamanna í landinu. Landamærum við suðurhluta landsins var lokað og skapaðist mikil örvænting meðal flóttafólksins. Mörg hundruð manns, þar af margir með lítil börn með sér, þröngvuðu sér í gegnum landamærin. Lögregla varpaði höggsprengjum á hópinn til að reyna að hindra för hans en fólkið klifraði engu að síður yfir gaddavírsgirðinguna til Makedóníu. Eftir átök á milli hóps flóttamanna og lögreglumanna var ákveðið að opna landamærin að nýju.
Angela Merkel Þýskalandskanslari og Francois Hollande, forseti Frakklands, funduðu í Berlín í gær um vandann. Á blaðamannafundi í gær hvöttu þau til samstöðu meðal Evrópuríkja í að takast á við málefni flóttamanna.