Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hóf herferð fyrir endurnýjanlega orkugjafa og gegn loftslagsbreytingum í Nevada í gær og kynnti nýja hvata til að stuðla að uppbyggingu grænnar orku. Bandaríkjamönnum verður til dæmis auðveldað að koma upp sólarrafhlöðum á þökum húsa sinna.
Forsetinn ætlar einnig að heimsækja New Orleans og nyrsta hluta Alaska í þessum mánuði á ferðalagi sínum sem ætlað er að vekja athygli á loftslagsbreytingum og styðja uppbyggingu hreinna orkugjafa. Tilkynnti hann meðal annars í gær að húseigendum verði auðveldað aðgengi að lánsfé til þess að fjármagna breytingar á húsum sínum til að gera þau sparneytnari á orku eða koma fyrir sólarrafhlöðum. Lánin geta þeir greitt til baka á löngum tíma með fasteignasköttum sínum.
„Hin raunverulega bylting sem á sér stað hérna er að fólk er að byrja að gera sér grein fyrir að það getur haft meiri stjórn á eigin orkunotkun,“ sagði Obama á ársþingi um hreina orku í Las Vegas en uppbygging í sólarorku hefur verið sérstaklega hröð í Nevada.
Í heimsóknum sínum til New Orleans, þegar tíu ár eru liðin frá því að fellibylurinn Katrina gekk yfir borgina, og Norður-Alaska er búist við því að Obama leggi meiri áherslu á þau áhrif sem loftslagsbreytingar hafa haft á svæðin. Alaska norðan heimskautsbaugar er eitt þeirra svæða jarðar sem verða fyrir mestri hlýnun um þessar mundir. Obama verður fyrsti forseti Bandaríkjanna til þess að heimsækja svæðið opinberlega.
Frétt Washington Post af herferð Obama fyrir endurnýjanlega orkugjafa