Verk ítalska málarans Paolo Porpora hafa vart vakið jafn mikla athygli meðal almennings og nú en það er ekki vegna verkanna sjálfra heldur að tólf ára piltur hafi óvart skemmt eitt þeirra. Nú hafa vaknað spurningar um hvort verkið er falsað.
Líkt og greint var frá á mbl.is í gær varð tólf ára gamall drengur fyrir því óhappi á sunnudag að skemma málverk sem metið er á 1,5 milljón Bandaríkjadala, 193 milljónir króna, þegar hann hrasaði og datt á verkið á sýningu í Taívan.
Málverkið er eftir ítalska listamanninn Paolo Porpora og er frá sautjándu öld. Verkið er hluti af sýningu á 55 verkum í höfuðborg Taívan, Taipai.
Í dag hafa hins vegar sérfræðingar bent á að verkið sé jafnvel ekki eftir Porpora og frá sautjándu öld.
Í fréttum fjölmiðla í Taívan í dag kemur fram að málverkið svipar mjög til annars verks, Composizione con vaso di fiori, sem er frá átjándu öld og er eftir Mario Nuzzi. Það verk er með mun lægra verðmat eða 25-30 þúsund evrur eða 3,7-4,4 milljónir króna á uppboði hjá Della Rocca Casa d'Aste uppboðshúsinu árið 2012. Ekki tókst að selja verkið á uppboðinu.
David Sun, sem stýrir TST Art of Discovery, sem kostar sýninguna í Taívan, segir málverkin tvö ólík án þess að skýra ummæli sín frekar.