Sebastian Kurz, utanríkisráðherra Austurríkis, hefur hótað því að koma á strangri landamæragæslu gagnvart öðrum ríkjum Evrópusambandsins ef sambandið finnur ekki lausn á þeim vanda sem það stendur frammi fyrir vegna mikils straums hælisleitenda til ríkja þess.
Kurz sagði við austurríska fjölmiðla í gær að tækist ekki að leysa málið á vettvangi Evrópusambandið myndu austurrísk stjórnvöld grípa til aðgerða til þess að leggja mat á það með skjótum hætti hvort hælisleitandi hefði farið um annað Evrópuríki á leið sinni til Austurríkis. Regluverk Schengen-samstarfsins, sem Ísland er meðal annars aðili að, kveður á um að hælisleitendur eigi að sækja um hæli í fyrsta aðildarríki þess sem þeir koma til. Kurz hefur áður gagnrýnt þetta fyrirkomulag, sem kennt er við írsku borgina Dublin, og sagt að það gerir ekki lengur það gagn sem stefnt hafi verið að.
„Sannleikurinn er sá að Dublin-kerfið virkar ekki lengur. Sannleikurinn er einnig sá að hugmyndin um Evrópusambandið, sem bandalag án innri landamæra, þarf að búa við landamæragæslu á ytri landamærum þess sem virkar.“ Fréttavefurinn Thelocal.at segir frá.