Fundu yfir 70 lík í bílnum

70 lík hafa fundist í flutningabílnum
70 lík hafa fundist í flutningabílnum AFP

Yfir sjötíu lík hafa fundist í vöruflutningabifreið sem hafði verið yfirgefin við hraðbraut í Austurríki í gær. Um er að ræða flóttafólk en bifreiðin fannst skammt frá landamærum Slóvakíu og Ungverjalands.

Talsmaður innanríkisráðuneytis Austurríkis, Alexander Marakovits, hefur staðfest fjöldann en í gær var talið að um 20-50 lík væri að ræða.

Ekki eru gefnar upp frekari upplýsingar um fólkið, hvorki hvaðan það kemur né á hvaða aldri það er. Austurríska lögreglan hefur boðað til blaðamannafundar vegna málsins klukkan 11 að staðartíma, klukkan 9 að íslenskum tíma.

Flutningabíllinn, 7,5 tonn, er ætlaður til flutninga á kælivöru en hann er með ungverskar númeraplötur. Hann er merktur slóvensku kjúklingafyrirtæki. Bílstjórinn hefur ekki fundist og er hans nú leitað af austurrísku og ungversku lögreglunni. 

Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, er í Austurríki á ráðstefnu með leiðtogum ríkja á Balkanskaganum vegna fjölda flótta- og förufólks í Evrópu, segist vera miður sín vegna þessara skelfilegu frétta. „Þetta er aðvörun til okkar um að við verðum að bregðast skjótt við málefnum flótta- og förufólks og það verður að gera að hætti Evrópubúa, sem þýðir samstöðu og að finna lausn,“ segir Merkel. 

Hver ætlar að stöðva þetta brjálæði?

Það voru menn sem voru að vinna við vegaframkvæmdir sem fyrst urðu varir við flutningabílinn og sáu torkennilegan vökva leka úr honum. Þegar lögregla kom á staðinn og opnaði afturdyrnar mætti þeim nánast óbærileg lykt og líkamshlutar flæktir saman. Þeim varð svo mikið um að þeir skelltu hurðinni aftur og sérfræðingar voru kallaðir til. Réttarmeinafræðingar hafa verið að störfum í alla nótt við að reyna að bera kennsl á hvaðan  fólkið kemur. Miðað við ástand líkanna er talið að fólkið hafi verið látið í einhvern tíma. Fréttamyndir af vettvangi sýna flugnager sveimandi í kringum bifreiðina í steikjandi hitanum.

Johanna Mikl-Leitner, innanríkisráðherra Austurríkis, sagði á blaðamannafundi í gær að allt kapp verði lagt á að finna glæpamennina sem stóðu að mansalinu. „Mansal er glæpsamlegt,“ segir hún.

Forsíða austurríska dagblaðsins Kurier er svört í gær og aðeins fyrirsögn - „Hver ætlar að stöðva þetta brjálæði?“

AFP
AFP
AFP
Kanslari Þýskalands Angela Merkel
Kanslari Þýskalands Angela Merkel AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert