Eyðilögðu hluta Bel hofsins

AFP

Liðsmenn Ríkis íslams hafa sprengt upp hluta Bel hofsins í fornu borginni Palmyra í Sýrlandi. Nýverið sprengdu þeir upp Baal Shamin-hofið í borginni en fornminjarnar þar eru á heimsminjaskrá UNESCO.

Fyrr í mánuðinum var Khaled al Asaad, forstöðumaður fornminjanna, afhöfðaður af Ríki íslams og lík hans hengt upp á víðförlum stað í Palmyra, en samtökin hafa ráðið borginni síðan í lok maí.

Palmyra er vin í miðju einskismannslandi og hefur verið kölluð „Perla eyðimerkurinnar“. Nafn hennar merkir Pálmaborg og hún er kennd við döðlupálma sem eru enn algengir á þessum slóðum. 

Palmyra er getið á töflum frá 19. öld fyrir Krist. Borgin varð snemma mikilvægur áningarstaður úlfalda- og vagnlesta á leiðinni milli Miðjarðarhafs og Persaflóa og einnig á Silkileiðinni til Kína og Indlands. Blómaskeið borgarinnar hófst á fyrstu öld eftir Krist, þegar hún var hluti af Rómaveldi, og stóð í fjórar aldir. Henni tók síðan að hnigna og hún eyðilagðist að lokum í jarðskjálfta árið 1089.

Palmyra var einn af vinsælustu ferðamannastöðum Sýrlands áður en stríðið í landinu hófst árið 2011. Á ári hverju komu þangað um 150.000 erlendir ferðamenn til að skoða fornminjarnar, m.a. fallegar styttur, meira en þúsund súlur og greftrunarsvæði með um 700 grafhýsi.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert