Meiri en helmingur indversku þjóðarinnar, eða fleiri en 590 milljónir manna, gerir þarfir sínar utandyra, jafnvel þó hluti þeirra hafi aðgang að salerni.
Fleiri en 200 þúsund börn í landinu láta lífið ár hvert úr niðurgangi en talið er að hægt sé að lækka þessa tölu með því að hvetja fólk til að nota frekar almenningssalerni. Búið er að hleypa af stokkunum verkefni þar sem börn fá „greitt fyrir að kúka“.
Þau sem gera þarfir sínar utandyra nota meðal annars runna, akra, lestarteina eða staði þar sem úrgangurinn getur auðveldlega komist í neysluvatn fólksins. Íbúar í fátækrahverfum í Chandoliya í Ahmedabad á Indlandi nota lestarteinana á morgnana til að gera þarfir sínar en þá eru færri á ferli.
Fólkið hefur aðgang að almenningssalernum en fáir nota þau. „Sumir eru hræddir um að það séu nornir á salernunum eða að börnum þeirra verði rænt,“ segir einn þeirra sem stendur fyrir verkefninu og bendir á að fólkið komi úr litlum þorpum þar sem salerni eru ekki til staðar.
Þegar fólk gerir þarfir sínar utandyra sækja flugur í úrganginn og bera með sér lítinn hluta af honum. Því næst komast flugurnar í mat fólksins og þannig geta sjúkdómar breiðst út sem valda meðal annars niðurgangi.
Nú fá börnin eina rúpíu eða tæpar tvær krónur á dag fyrir að nota almenningssalerni og fá þau peningana greidda í lok mánaðar, líkt og laun. Skipuleggjendur verkefnisins telja að þegar börnin venjist því að nota salernin muni fullorðna fólkið fylgja á eftir.
Ekki eru þó allir vissir um verkefnið muni ganga vel og benda á að almenningssalernin séu ekki alltaf vel þrifin. Þá hafi börnum verið meinaður aðgangur að þeim þar sem sum þeirra noti of mikið vatn.