Á síðasta ári var minnst 47 Dönum nauðgað á ferðalögum erlendis. MetroXpress greinir frá því að utanríkisráðuneyti Danmerkur hafi sett aðvaranir um hættu á kynferðisofbeldi inn í leiðbeiningar sínar um ferðalög.
Ofangreind tala tekur aðeins til þeirra sem höfðu samband við tryggingafélög sín til að fjármagna læknisaðstoð eða flug heim til Danmerkur eftir nauðgun í útlöndum. Rannsókn dómsmálaráðuneytis Danmerkur frá 2014 sýndi að um þrjú prósent þeirra þolenda sem kæra nauðganir, yfir 100 einstaklingar árlega, hafa orðið fyrir þeim á erlendri grundu.
Talan yfir nauðganir erlendis gæti þó í raun verið mun hærri þar sem ekki er vitað hversu margir leituðu ekki aðstoðar eða kærðu.
Hefur miðillinn eftir talsmanni ferðaöryggisfyrirtækisins SOS International að flestar nauðganirnar eigi sér stað í Grikklandi, Tyrklandi, Taílandi og á Spáni en það eigi sér eðlilegar skýringar þar sem þessi lönd séu vinsælustu áfangastaðir danskra ferðamanna.
Árlega hafa fimm til tíu fórnarlömb nauðgana samband við sendiherra.
„Við heyrum aðeins af alvarlegri málum og oft í löndum þar sem fórnarlömbin þurfa hjálp við að hafa samband við lögreglu og yfirvöld. Hvað Indland varðar skerptum við á leiðbeiningunum eftir málið sem kom upp á síðasta ári þar sem við vörum við að ferðamönnum hefur verið nauðgað,“ segir Ole Egeberg Mikkelsen, deildarstjóri í utanríkisráðuneytinu og vísar til máls þar sem 52 ára dönskum leiðsögumanni var nauðgað af átta karlmönnum í Indlandi þegar hún spurði til vegar.
Meðal nýtta leiðbeininga sem danska utanríkisráðuneytið hefur bætt við tilmæli sín til ferðalanga er að hafa ávallt auga á drykkjum sínum og að ganga ekki einir að nóttu til í Brasilíu, Egyptalandi, Tyrklandi, Líbanon, Indlandi, Suður-Afríku og Taílandi. Einnig hefur ráðuneytið varað sérstaklega við tíðni nauðgana í „Full Moon“ veislum í Taílandi.
Dönsk stjórnvöld mæla einnig sérstaklega gegn því að fólk leiti til lögreglu eftir nauðganir í Egyptalandi og Sameinuðu arabísku furstadæmunum og hvetja heldur til þess að þolendur leiti beint til sendiráða Danmerkur. Sú fyrirmæli skýrast af því að árið 2013 var norsk stúlka látin sæta 16 mánaða fangelsisvist fyrir kynlíf utan hjónabands eftir að hafa reynt að kæra nauðgun til lögreglu í Dubai.