Þau dreymir um nýjan heim, betra líf. „Sýrland er ekki lengur til,“ segir fjölskyldufaðirinn sem fór með börn sín og eiginkonu yfir hafið til Tyrklands og þaðan til Grikklands.
Muhammad al-Murarati átti heima ásamt fjölskyldu sinni í Aleppo í Sýrlandi. „Sýrland er ekki lengur land. Húsið mitt var eyðilagt. Húsið mitt sem mig dreymdi um allt mitt líf um að byggja, var sprengt. Allt er farið. Sýrland er ekki lengur til.“
Hann segir ferðina yfir hafið hafa verið erfiða. Smyglararnir hafi notfært sér neyð flóttafólksins. Þeir hafi tekið allan þeirra pening.
„Fólk drukknaði. Ég sá nokkra báta sökkva. Fólk drukknaði í sjónum. Enginn bjargaði því.“
Hann er nú í flóttamannabúðum og þar er þröng á þingi. Langar biðraðir eru eftir matarmiðum og aðstaða til að sofa er slæm. „Það eru engin klósett, það er lítill matur.“
Þá segir hann hreinlætisaðstöðu enga, hvergi sé hægt að þvo sér. Hann segir að allir reyni sitt besta en flóttafólkið sé svo margt að aðstaðan dugi engan veginn. „En ég er hamingjusamur. Nýi heimurinn, ég fer til nýja heimsins!“