Þekkti ekki til í Miðausturlöndum

Donald Trump vill verða næsti forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump vill verða næsti forseti Bandaríkjanna. AFP

Donald Trump lenti í nokkuð vandræðalegum aðstæðum í gær þegar hann gat ekki nefnt leiðtoga Ríkis íslams, Hezbollah og al-Qauida í útvarpsviðtali. The Independent segir frá þessu.

Þáttastjórnandinn Hugh Hewitt spurði Trump hvort hann þekkti leiðtoga helstu hryðjuverkasamtaka íslamista. Trump sagði spurninguna óþarfi og bætti við að þegar hann yrði forseti „væru þeir allir horfnir.“

„Nöfnin sem þú nefndir, þeir verða örugglega ekki einu sinni til eftir sex mánuði eða ár,“ sagði Trump en þess má geta að Hezbollah hefur haft sama leiðtogann í 23 ár. Hewitt spurði Trump einning út í írönsku Quds-hersveitirnar og hóf Trump að tala um Kúrda. Seinna sagði Trump að honum hafi einfaldlega misheyrst.

Trump sagðist síðan þekkja til Qassem Soleimani, leiðtoga Qud-hersveitanna en gat þrátt fyrir það ekki svarað spurningum Hewitt um hann.

Seinna sagði Trump að það að hafa verið spurður út í nákvæm nöfn leiðtoga hryðjuverkasamtaka „fáránlegt“ og „algjörlega gagnslaust“.

Hann sagði þó að ef hann  yrði forseti myndi hann fljótlega læra allt sem læra þyrfti um ástandið í Miðausturlöndum. „Fyrsta daginn, eða fyrr, strax eftir kosningarnar, mun ég vita meira um þetta en þú nokkun tímann. Það get ég sagt þér,“ sagði hann við Hewitt.

„Þannig að munurinn á Hezbollah og Hamas kemur þér ekki við núna en mun gera það?“ spurði Hewitt. „Það mun gera það þegar það á við,“ svaraði Trump. „Ég mun vita miklu meira en þú innan við sólarhring eftir að ég fæ starfið.“

Trump hefur boðið sig fram sem forsetaframbjóðenda repúblikana og er hann með mesta fylgi innan flokksins. Hann hefur skrifað undir samning þess efnis að hann muni ekki bjóða sig fram sjálfstætt sigri hann forkjörið heldur styðja þann sem sigrar.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert