Bandarísk yfirvöld lýstu í dag áhyggjum sínum yfir þátttöku Rússa í hernaðaruppbyggingu í Sýrlandi.
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, ræddi við starfsbróður sinn í Rússlandi, Sergei Lavrov í síma í dag og kom þessum áhyggjum á framfæri.
Kerry gerði Lavrov grein fyrir því að ef fréttir um þátttöku Rússa væru réttar þá geti það þýtt stigmögnun átaka þar og að fleiri saklausir borgarar týni lífi, fleiri fari á flótta og árekstur við baráttuna gegn Ríki íslams í Sýrlandi, segir í tilkynningu frá bandaríska utanríkisráðuneytinu.
Þar kemur fram að Kerry og Lavrov hafi sammælst um að ræða hernaðinn í Sýrlandi nánar á fundi sínum í New York síðar í mánuðinum.
New York Times greindi frá því að Rússar hefðu sent hernaðarráðgjafa til Sýrlands og væru að aðstoða forseta landsins, Bashar al-Assad, frekar. Til að mynda hefðu verið fluttar þangað færanlegar byggingar sem gætu hýst fleiri hundruð manns á flugvöllum landsins og eins væri búið að koma upp færanlegri flugumferðarstjórn.