Ríki íslams hótar að ná yfirráðum yfir mikilvægum þjóðvegi í Sýrlandi og ef það ætlunarverk tekst er hætt við því að milljónir bætist í hóp þeirra sem þegar hafa flúið land.
Hersveitir Ríkis íslams hafa þegar náð hluta M5, sem er helsta tenging milli svæða sem eru undir yfirráðum stjórnarhersins í Damaskus og Norður- og Vestur-Sýrlands.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í grein Independent í dag en þar segir að upphaf þessa megi rekja til hernáms Ríkis íslams í bænum Qaryatain, norðaustur af Damaskus fyrir mánuði síðan. Sýrlenska hernum hefur ekki tekist að endurheimta bæinn en þar hafa hersveitir Ríkis íslams eyðilagt St Elian klaustrið sem er að hluta til 1500 ára gamalt.
17 milljónir Sýrlendinga eftir
Fjórar milljónir Sýrlendinga eru þegar á flótta en þeir koma flestir frá þeim svæðum sem hafa orðið verst úti í árásum stjórnarhersins þannig að þau eru nánast óbyggileg. En meirihluti þeirra 17 milljón Sýrlendinga sem enn búa í landinu eru búsettir á svæðum sem eru undir yfirráðum forseta landsins, Bashar al-Assad. En nú ógnar Ríki íslams þessum svæðum.
Óttast fátt eins mikið og Ríki íslams
Íbúarnir eru skelfingu lostnir enda óttast þeir fátt jafn mikið og skæruliða Ríkis íslams. Þeir óttast að RÍ muni hertaka borgir, bæi og þorp þeirra og því fylgi fjöldaaftökur, limlestingar og nauðganir gagnvart þeim sem ekki sverja öfgahreyfingunni hollustueið. Samtökin Ríki íslams eru fylgjandi öfgaskoðunum súnní-múslíma og þeir sem ekki eru súnní múslímar eru umsvifalaust þurrkaðir út.
Um helmingur sýrlensku þjóðarinnar er þegar á flótta innanlands eða utanlands og því er vart hægt að segja til um hversu margir alavítar (2,6 milljónir alls) síja-múslímar, kristnir (2 milljónir) sýrlenskir Kúrdar (2,2 milljónir) og drúsar (650 þúsund) séu eftir á þeim svæðum sem um ræðir. Jafnframt eru milljónir súnní múslíma sem alls ekki styðja Ríki íslams. Blaðamaður Independent, Patrick Cockburn, segir í grein sinni að þetta geti þýtt að flóttamannafjöldinn tvöfaldist - fari úr fjórum milljónum í átta milljónir.
Cockburn, sem er Íri, var valinn blaðamaður ársins í Bretlandi í vali á besta fréttamanni í erlendum fréttum í ár (Foreign Reporter of the Year). Hann hefur verið fréttaritari í Miðausturlöndum frá árinu 1979 fyrir Financial Times og flutti sig yfir til Independent nýverið.
Staðan versnar sífellt í Sýrlandi
Hann bendir á að ríkisstjórnir og íbúar í Evrópusambandsríkjunum hafi undanfarið verið minntir óþyrmilega á stöðu flóttafólks, einkum vegna myndbirtingar af þriggja ára dreng, Aylan al-Kurdi, sem fannst látinn á tyrkneskri baðströnd. En fólk sýni minni áhuga á stöðunni í Sýrlandi sem getur valdið því að milljónir til viðbótar neyðist til þess að leggja af stað á flótta. Enda er svo komið að Sýrland hefur tekið við af Afganistan sem það land sem flestir flýja. Afganistan hefur haldið þeirri stöðu í um þrjá áratugi.
Allt bendi til þess að stríðinu í Sýrlandi sé hvergi nærri lokið enda hafi ekki verið mikið gert til þess að stöðva það. Á sama tíma og hersveitir Assads veikjast þá styrkjast sveitir Ríkis íslams og annarra skæruliðasamtaka, svo sem Jabhat al-Nusra, hreyfingar salanfista og fleiri samtök sem aðhyllast sömu ofbeldisfullu hugmyndafræðina.