Bretland mun taka við 20.000 sýrlenskum flóttamönnum á næstu fimm árum. Þetta kom fram í máli David Cameron, forsætisráðherra landsins í dag.
„Við leggjum til að Bretland taki á móti 20.000 flóttamönnum á kjörtímabilinu,“ sagði forsætisráðherrann þegar hann ávarpaði breska þingið.
„Með því höldum við uppi þeirri mynd sem fólk hefur af landinu að Bretland sé land umhyggju og standi með þeim sem þurfa á aðstoð að halda,“ sagði hann.
Bretland mun taka á móti flóttamönnum í flóttamannabúðum í Jórdaníu, Líbanon og Tyrklandi. „Þetta tryggir beinni og öruggari leið flóttamanna til Bretlands, frekar en að þeir hætti á ferðalag gegnum Evrópu,“ sagði Cameron. Sérstaklega viðkvæmt flóttafólk eins og munaðarlaus börn, fá sérstakan forgang.